Viðurkennir afglöp stjórnvalda

Mynd sem tekin var af einræðisherranum þegar hann ávarpaði þingið.
Mynd sem tekin var af einræðisherranum þegar hann ávarpaði þingið. AFP

Stór mistök hafa verið gerð undanfarin fimm ár. Þetta sagði einræðisherra N-Kóreu, Kim Jong Un, þegar hann ávarpaði eigin flokk, Verkalýðsflokkinn. Sagði hann jafnframt efnahagsstefnu stjórnvalda hafa verið algjör afglöp.

Það er afar sjaldgæft að Kim viðurkenni mistök, hvað þá með eins afgerandi hætti og þessum. Sagði hann að landið væri í vandræðum á nær öllum sviðum. „Við erum langt á eftir áætlun hvert sem litið er,“ sagði einræðisherrann þegar hann ávarpaði þúsundir meðlima Verkalýðsflokksins á þingi flokksins í höfuðborginni Pyongyang. 

Verða að læra af reynslunni

Í ávarpinu kom m.a. fram að landið þyrfti að læra af „sárri reynslu“ mistaka. Þá þyrfti að taka stórar ákvarðanir til að koma landinu úr þeim hörmungum sem nú ríkja. Hungursneyð hefur ríkt í N-Kóreu og hefur ástandið farið versnandi síðustu ár. 

„Við þurfum að vera nægilega stór til að geta viðurkennt mistökin, sem annars verða bara stærri ef ekkert er að gert,“ sagði Kim og bætti við að setja þyrfti upp viðskiptaáætlun til næstu fimm ára. 

mbl.is

Bloggað um fréttina