ESB fær tvöfalt fleiri bóluefnaskammta

Frá bólusetningu í Hollandi.
Frá bólusetningu í Hollandi. AFP

Evrópusambandið (ESB) hefur tvöfaldað samning sinn við lyfjaframleiðandann Pfizer og fær sambandið nú 300 milljónir bóluefnaskammta aukalega við það sem áður hafði verið samið um. ESB fær því allt að 600 milljónir skammta. 

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, greindi frá þessu í dag. 

„Framkvæmdastjórn Evrópu lagði í dag til við aðildarríki ESB að keyptir yrðu 200 milljónir skammta til viðbótar af bóluefninu frá Pfizer með möguleika á 100 fleiri skömmtum,“ segir í tilkynningu frá ESB. 

„Þetta myndi gera ESB kleift að kaupa allt að 600 milljónir skammta af þessu bóluefni, sem þegar er notað í öllum ríkjum Evrópusambandsins.“

Von der Leyen sagði að 75 milljónir af viðbótarskömmtunum verði afhentir á öðrum ársfjórðungi. 

Þetta kemur fram á vef Guardian en þar birtast fréttir af Covid-19 á heimsvísu í lifandi streymi.

Ástandið muni fyrst versna í Bandaríkjunum

Í því kemur einnig fram að 4.085 Bandaríkjamenn hafi fallið frá úr Covid-19 á síðastliðnum sólarhring. Tæplega 275.000 smit voru skráð. Anthony Fauci sóttvarnalæknir Bandaríkjanna hefur spáð því að ástandið þar í landi hvað Covid-19 varðar muni versna áður en það batnar. 

Þá hefur Ayatollah Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans, bannað ríkisstjórninni að flytja inn ný bóluefni við Covid-19 frá Bandaríkjunum og Bretlandi. 

„Ef Bandaríkjamenn gætu framleitt bóluefni væri staðan þar ekki svo slæm,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert