„Láti sig hverfa hljóðlega á braut“

„Það er best fyrir alla, þar á meðal hann sjálfan, ef hann lætur sig hverfa hljóðlega á braut,“ segir í leiðara Wall Street Journal í dag og er þar vísað til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Blaðið er í eigu íhaldsmannsins Rupert Murdoch.

„Ef Trump vill forðast kæru fyrir embættisbrot er besta leiðin fyrir hann að taka persónulega ábyrgð og segja af sér,“ segir í leiðara blaðsins.

 

Trump sýndi á sér nýja hlið á Twitter í nótt þegar hann hét því að valdaskiptin yrðu friðsæl en líkt og fram hefur komið réðust æstir stuðningsmenn forsetans inn í þinghúsið í Washington á miðvikudag til að koma í veg fyrir að þingheimur myndi staðfesta kjör Joe Biden í embætti forseta Bandaríkjanna. Fimm eru látnir eftir óeirðirnar. 

AFP

Tveir ráðherrar hafa látið af störfum í kjölfar ofbeldisverkanna á miðvikudag. Trump birti myndskeið á Twitter í nótt eftir að samfélagsmiðillinn opnaði að nýju aðgang hans að miðlinum og þar sagði hann að líkt og all­ir Banda­ríkja­menn sé hon­um mis­boðið vegna of­beld­is­ins og lög­leys­unn­ar sem þar fór fram.

Mike Pence og Donald Trump.
Mike Pence og Donald Trump. AFP

Tímabært að kæla sig niður

Trump talaði um að þjóðin hefði farið í gegnum snarpar kosningar og tilfinningahitinn sé mikill en nú sé tímabært að kæla sig niður og ná ró að nýju. 

„Ný stjórn verður sett í embætti 20. janúar. Áherslur mínar nú beinast að því að tryggja áfallalaus valdaskipti,“ segir hann í ávarpinu á Twitter. Hann talaði einnig um að það hafi verið hans mesti heiður á lífsleiðinni að fá að þjóna sem forseti bandarísku þjóðarinnar.

Trump flutti þessa ræðu á Twitter eftir að tveir háttsettir demókratar í þinginu hvöttu til þess að hann yrði sviptur völdum eins fljótt og auðið er vegna þess skaða sem hann gæti valdið þessa síðustu daga í embætti valdamesta starfs heims. 

„Þetta voru ekki mótmælendur“

Joe Biden, sem hlaut 7 milljónum fleiri atkvæði en Trump, hefur ekki viljað fara fram á að Trump fari fyrr frá völdum en sakar hann um að bera ábyrgð á árásum á lýðræðisstofnunum ríkisins. 

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

„Mín skoðun er sú að gærdagurinn hafi verið einn sá svartasti í sögu bandaríku þjóðarinnar,“ sagði Biden þegar hann tilkynnti um valið á Merrick Garland, virtum dómara, í embætti dómsmálaráðherra. Eitt fyrsta verk Garland, ef þingið staðfestir valið, verður að taka ákvörðun um hvort sækja eigi Trump til saka vegna óeirðanna. „Þetta voru ekki mótmælendur,“ sagði Biden. „Þetta var óeirðalýður, uppreisnarmenn, innlendir hryðjuverkamenn.“ „Ég vildi óska að við gætum sagt að ekki hefði verið hægt að sjá þetta fyrir en það er ekki rétt. Við gátum séð þetta fyrir.“

Neyðarástand á hæsta viðbúnaðarstigi

AFP

Forseti fulltrúadeildarinnar, Nancy Pelosi, og leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, Chuck Schumer, hvöttu Mike Pence varaforseta til að virkja 25. grein stjórnarskráarinnar sem heimilar meirihluta ríkisstjórnarinnar til að fjarlægja forseta landsins frá völdum. Þau hótuðu að kæra Trump fyrir embættisbrot en það yrði þá í annað skiptið frá því hann tók við völdum fyrir 4 árum. „Þetta er neyðarástand af hæsta viðbúnaðarstigi,“ sagði Pelosi og segir Trump vera afar hættulegan mann. Hún segir að með því að hvetja til æsingar eins og hann gerði á miðvikudag sé ljóst að það verði að koma honum úr embætti. „Á meðan það eru aðeins 13 dagar eftir þá getur hver þeirra verðið hryllingssýning fyrir Bandaríkin,“ sagði Pelosi í gær. 

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AFP

Fáir repúblikanar hafa tekið undir slíkar aðgerðir þrátt fyrir að Adam Kinzinger, sem hefur oft gagnrýnt Trump innan Repúblikanaflokksins, segir að það sé tímabært að stöðva þessa martröð og að 25. greininni verði beitt. Með því yrði Mike Pence starfandi forseti.

John Kelly, sem var starfsmannastjóri Hvíta hússins í 18 mánuði í valdatíð Trumps, segir að ríkisstjórnin eigi að íhuga að virkja stjórnarskrárgreinina. Pence hefur aftur á móti ekki tekið undir þetta en hann neitaði að verða við þrýstingi af hálfu Trumps um íhlutun í staðfestingu þingsins á vali kjörmanna. 

AFP

Ráðherra samgöngumála, Elaine Chao, tilkynnti afsögn sína í gær vegna ofbeldisins í þinghúsinu en Chao, sem er gift leitoga repúblikana í öldungadeildinni, Mich McConnell, hefur setið einna lengst í ríkisstjórn Trumps. Eins sagði menntamálaráðherrann af sér en Betsy DeVos segir í bréfi til Trumps segir að að hegðun sem þessi sé óásættanleg fyrir landið. Aðrir sem hafa sagt af sér eru Mick Mulvaney, sem er fyrrverandi starfsmannastjóri Trump en núverandi erindreki landsins í Norður-Írlandi og aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi landsins, Matt Pottinger.

Hvað ef múgurinn hefði verið öðruvísi samansettur?

Líkt og greint var frá á mbl.is í morgun lést lögreglumaður í þinghúsinu, Brian Sicknick, af völdum áverka sem hann hlaut af hálfu óeirðarseggjanna. Auk hans létust fjórir til viðbótar í óeirðunum. 

Betsy Devos menntamálaráðherra.
Betsy Devos menntamálaráðherra. AFP

Steven Sund, lögreglustjóri þinghússins, sem er yfirmaður 2.300 lögreglumanna, hefur einnig sagt af sér og þingmenn segja að rannsaka þurfi hvað fór úrskeiðis í öryggisgæslunni þennan dag. 

Ýmsir hafa velt fyrir sér hver viðbrögð lögreglunnar hefðu verið ef óeirðarseggirnir hefðu ekki verið hvítir stuðningsmenn Trumps heldur svartir baráttumenn gegn kynþáttamisrétti.

Í New York tóku hundruð þátt í mótmælum í gærkvöldi og kröfðust afsagnar Trumps og eins hefur fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, lögfræðingurinn Michelle Obama, látið í sér heyra um atburði síðustu daga. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert