Lögreglumaður drepinn af múgnum

Lögreglumaður sem starfar í þinghúsi Bandaríkjanna lést af völdum sára sinna sem hann hlaut er æstur lýður réðst inn í þinghúsið í Washington á miðvikudag. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að hann hafi hlotið áverkana þegar til átaka kom við stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem ruddust inn í þinghúsið.

Þetta er fyrsti lögreglumaðurinn sem vitað er að hafi látist í átökunum sem brutust út í kjölfar þess að múgur, veifandi fánum, tók völdin af lögreglu. Fjórir úr hópi innrásarliðsins létust, þar á meðal kona sem lögregla skaut til bana. Ekki liggur ljóst fyrir hvernig hinir þrír létust.

Lögreglumaðurinn sem lést hét Brian Sicknick. Eftir átökin við mótmælendur missti hann meðvitund þegar hann sneri aftur á sína starfsstöð og var fluttur á sjúkrahús. Þar lést hann seint í gærkvöldi að bandarískum tíma. Í frétt Washington Post kemur fram að lögreglan í þinghúsinu hafi ekki óskað eftir aðstoð starfssystkina sinna í borginni fyrr en æstur múgurinn var kominn inn í bygginguna og reyndi að fá niðurstöðu forsetakosninganna breytt. Margir lögreglumenn sem starfa í þinghúsinu eru bæði úrvinda og særðir. 

Þrír yfirmenn öryggismála í þinghúsinu, Steven A. Sund lögreglustjóri, Paul D. Irving sem stýrir öryggismálum í þingsal og yfirmaður öryggismála í öldungadeildinni, Michael C. Stenger, hafa allir sagt upp störfum eftir atburðina á miðvikudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert