Níu handteknir í mótmælum í Danmörku

Mótmælendur og lögregla á Strikinu.
Mótmælendur og lögregla á Strikinu. Skjáskot/TV2

Níu voru handteknir í fjölmennum mótmælum gegn samkomutakmörkunum, sem fram fóru í Kaupmannahöfn og Álaborg í kvöld. Fjórir voru handteknir í Kaupmannahöfn en fimm í Álaborg. Mótmælin voru á vegum hóps sem kallar sig 'Men in Black, Denmark', sem boðaði til mótmælanna á Facebook.

Fréttamaður sjónvarpsstöðvarinnar TV2 á vettvangi segir að um tvö þúsund manns hafi komið saman til að mótmæla í miðborg Kaupmannahafnar. Um fimm hundruð manns hafi verið á Ráðhústorginu þegar mest lét og hlustað á ræðumenn sem héldu því fram í senn að kórónuveiran væri tilbúningur og samkomutakmarkanir gróf aðför að frelsinu.

Myndir og myndbönd af vettvangi má finna hér í frétt TV2.

Mótmælin teygðu sig einnig inn á verslunargötuna Strikið, sem liggur að torginu. Mótmælendur báru kyndla og kveiktu sumir í flugeldum auk þess að vera með ógnandi tilburði í garð lögreglumanna, sem voru á fimmta tug. 

Harðar samkomutakmarkanir tóku gildi í Danmörku skömmu fyrir jól. Allar verslanir að undanskildum matvöruverslunum eru lokaðar, og sama gildir um kaffihús, veitingastaði, bari, hárgreiðslustofur, listasöfn, íþróttahús og svona mætti lengi telja. Áttu hörðu reglurnar fyrst að gilda til 3. janúar en voru fyrir skemmstu framlengdar um tvær vikur hið minnsta.

Fyrr í vikunni voru fjöldatakmarkanir færðar úr tíu í fimm manns.

Virðist það hafa verið kornið sem fyllti mælinn hjá andstæðingum reglnanna, en þetta er í fyrsta sinn sem fjölmenn mótmæli gegn almennum sóttvarnareglum eru haldin í borginni. Fámennur hópur atvinnumanna hefur þó haldið uppi mótmælum við Kristjánsborgarhöll samfleytt síðustu mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert