Einungis Íslendingar undanþegnir reglum

Frá landamæraeftirliti í Leifsstöð.
Frá landamæraeftirliti í Leifsstöð. mbl.is/Eggert

Frá og með morgundeginum taka gildi nýjar sóttvarnareglur í Eistlandi. Samkvæmt þeim verða komufarþegar frá Íslandi þeir einu sem ekki þurfa að lúta umræddum reglum. Þannig geta Íslendingar farið til landsins án takmarkana og einnig án þess að taka kórónuveirupróf við komuna.

Þetta kemur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins þar í landi. 

Miðað er við að færri en 50 smit séu á hverja 100 þúsund íbúa. Ef svo er geta einstaklingar frá viðkomandi löndum komið til Eistlands án þess að undirgangast skimun. Staðan verður endurmetin vikulega. 

Reglurnar eru mismunandi eftir því hvaðan fólk kemur. Í ákveðnum tilvikum verður fólki gert að sæta 14 daga sóttkví. Þá gilda sérstakar reglur um fólk sem hefur undirgengist próf áður en það lagði af stað til Eistlands. 

Alls hafa 33.516 manns greinst með veiruna í Eistlandi, þar af hafa 283 látið lífið. 22.876 hafa að sama skapi náð sér eftir að hafa greinst. Faraldurinn hefur verið í talsverðum vexti í landinu síðustu vikur.

mbl.is