Pence verður viðstaddur innsetningu Bidens

Mike Pence fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, verður viðstaddur innsetningarathöfn Joes Bidens, verðandi forseta Bandaríkjanna, síðar í mánuðinum samkvæmt fréttaflutningi vestra. 

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna, hefur áður lýst því yfir að hann muni ekki verða viðstaddur athöfnina. 

Pence, sem löngum var tryggur stuðningsmaður Trumps, kaus að láta ekki undan þrýstingi um að beita sér ólöglega fyrir að úrslit nýafstaðinna forsetakosninga yrðu ekki staðfest. Pence tilkynnti Joe Biden formlega sigurvegara kosninganna á Bandaríkjaþingi á miðvikudaginn. Í kjölfarið réðst múgur mótmælenda sem studdu Trump forseta inn í þinghúsið. Fimm létust í óeirðunum. 

Pence var meðal þeirra sem forða þurfti úr þingsalnum þegar múgurinn réðst inn. Nokkrar fréttastofur vestanhafs hafa flutt fréttir af því í morgun að Pence ætli að vera viðstaddur innsetningarathöfn Bidens sem fer fram 20. janúar.

Biden sagði fyrr í vikunni að Pence væri velkominn í athöfnina sem mun fara fram með hóflegu sniði vegna Covid-19.

mbl.is