Schwarzenegger fer hörðum orðum um Trump

Stórleikarinn og fyrrverandi ríkisstjóri Kaliforníu, Arnold Schwarzenegger, fór hörðum orðum um Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að stuðningsmenn forsetans réðust inn í þinghúsið í Washington á miðvikudag, og sagði Schwarzenegger að Trumps yrði minnst sem versta forseta sögunnar.

Þetta er meðal þess sem kom fram í myndskeiði sem Schwarzenegger birti á twittersíðu sinni í dag.

Schwarzenegger fjallaði um uppvaxtarár sín í Austurríki en hann fæddist árið 1947, tveimur árum eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar.

Reyndi að skipuleggja valdarán

Hann líkti árásinni í þinghúsið á miðvikudag við kristalnóttina svokölluðu, þegar nas­ist­ar réðust inn í bæna­hús gyðinga og heim­ili gyðinga og fyr­ir­tæki þeirra um allt Þýska­land og hluta Aust­ur­rík­is 9. nóv­em­ber 1938. Ráðist var á yfir eitt þúsund bæna­hús og markaði upp­haf á hrotta­legu of­beldi í garð gyðinga sem endaði með fjölda­morðum víða um heim. 

Schwarzenegger sagði að rúðurnar í þinghúsinu hefðu brotnað og um leið hefðu hugmyndir sem Bandaríkjamenn telja sjálfsagðar verið mölbrotnar.

„Trump forseti reyndi að snúa úrslitum úr sanngjörnum kosningum. Hann reyndi að skipuleggja valdarán með því að ljúga að fólki,“ sagði Schwarzenegger og bætti við að logið hefði verið að föður hans í Austurríki.

Heyrði bráðum sögunni til

Schwarzenegger sagði að Trump myndi bráðum heyra sögunni til og gagnrýndi suma félaga sína í flokki repúblikana fyrir kjarkleysi gagnvart forsetanum.

Bandaríkjamenn muni koma sterkari út úr þessum atburðum, að mati Schwarzeneggers. Tryggja þurfi að atburður eins og átti sér stað á miðvikudag verði aldrei aftur. Draga þarf fólk til ábyrgðar vegna þess og styrkja þarf lýðræðið í landinu.

Arnold Schwarzenegger.
Arnold Schwarzenegger. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert