Ætlar að lýsa húta hryðjuverkamenn

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann muni setja húta, samtök síja-múslima og uppreisnarmenn í Jemen, á lista yfir hryðjuverkasamtök. Komi þingið ekki í veg fyrir ákvörðun hans fara hútar á listann 19. janúar, eða daginn áður en Joe Biden tekur við forsetaembætti Bandaríkjanna.

Yfirlýsing Pompeos er umdeild, en hjálparsamtök óttast að ákvörðunin geti gert illt verra í Jemen, þar sem stríð hefur geisað í um sex ár, eða frá því hútar réðust inn í höfuðborgina Sanaa og lögðu hana undir sig. Tugir þúsunda hafa látist í stríðinu í Jemen og þarf nokkur hluti landsmanna á mannúðaraðstoð að halda til þess að lifa af.

Stjórnvöld í Jemen fagna orðum Pompeo og segja húta eiga skilið að verða settir á lista Bandaríkjanna yfir hryðjuverkasamtök fyrir að valda einni verstu mannúðarkrísu heims.

Hútar hafa hins vegar brugðist ókvæða við og fordæma ákvörðunina og kveðjast munu bregðast við. Þá sé Jemenum alveg sama um ákvarðanir stjórnvalda í Washington, sem beri ábyrgð á dauða margra landsmanna og hungursneyð í Jemen.

Þá hefur utanríkisiráðuneyti Írans, sem styður uppreisn húta í Jemen, fordæmt ákvörðunina og segir hana munu bæta gráu ofan á svart, bæði í stríðinu í Jemen sem og á þessum lokadögum bandaríkjastjórnar, sem þegar sé mjög sködduð.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hjálparsamtök óttast að ástandið verði gert enn verra verði hútar …
Hjálparsamtök óttast að ástandið verði gert enn verra verði hútar lýstir hryðjuverkamenn. AFP
mbl.is