Hálfs metra snjókoma í Madrid

Spánverjar eru í kapphlaupi við tímann til þess að hreinsa vegi eftir mikla snjókomu svo hægt sé að koma bóluefni við Covid-19 og matarbirgðum til svæða sem hafa orðið fyrir storminum Filomena. 

Um hálfs metra snjókoma féll í höfuðborginni Madrid yfir helgina, en meðfylgjandi myndskeið sýnir stöðuna um helgina sem leið. Hið minnsta fjórir létust í óveðrinu og þúsundir ferðamanna eru nú strandaglópar. Hitastig er nú víða á Spáni í kringum mínus átta gráður og óttast veðurfræðingar að snjórinn eigi eftir að breytast í harðan klaka. 

Yfirvöld á Spáni hafa kallað eftir aðstoð lögreglu og hers til að tryggja að hægt verði að dreifa sendingu af 300.000 bóluefnaskömmtum til minni byggða. Hermenn hafa verið sendir til að hreinsa 700 stærstu vegi landsins og um 3.500 tonn af salti voru flutt til Madrid. 

Alþjóðaflugvöllurinn í Madrid hóf aftur starfsemi á sunnudagskvöld eftir að öllu flugi á föstudag var aflýst. 

Í kringum 500 íbúar á Madrid-svæðinu neyddust til að eyða aðfaranótt laugardags í tímabundnum skýlum eftir að snjóbylurinn lokaði þá inni. Þá eyddu um 100 starfsmenn og viðskiptavinir tveimur sólarhringum í verslunarmiðstöð yfir helgina. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert