Lögreglumaður sagður hafa framið sjálfsvíg

Lögreglumenn að störfum við þinghúsið syrgja Brian Sicknick.
Lögreglumenn að störfum við þinghúsið syrgja Brian Sicknick. AFP

Lögreglan í þinghúsi Bandaríkjanna hefur tilkynnt dauða lögreglumannsins Howards Liebengoods, sonar og nafna fyrrverandi yfirmanns öryggismála í öldungadeild þingsins.

Liebengood, 51 árs, var kallaður „Howie“. Hann lést á laugardaginn, að sögn lögreglunnar. Í yfirlýsingu kemur ekkert fram um dánarorsök en tveir lögreglumenn greindu blaðinu Washington Post frá því að hann hefði framið sjálfsvíg er hann var ekki í vinnunni, nokkrum dögum eftir að hafa verið að störfum þegar stuðningsmenn Donalds Trumps, fráfarandi Bandaríkjaforseta, réðust inn í þinghúsið.

AFP

Liebengood hafði starfað í þinghúsinu frá árinu 2005 og var oft á tíðum að störfum við Delaware-inngang Russell-skrifstofubyggingar öldungadeildarinnar, að því er Washington Post greindi frá. 

„Við syrgjum lögreglumanninn Liebengood,“ sagði Gus Papathanasiou, yfirmaður stéttarfélags lögreglumanna í þinghúsi Bandaríkjanna, í yfirlýsingu. „Liebengood var gott dæmi um það óeigingjarna starf sem var aðalsmerki USCP.“

„Hugur okkar og bænir eru hjá fjölskyldu hans, vinum og samstarfsmönnum.“

Bandaríska þinghúsið.
Bandaríska þinghúsið. AFP

Liebengood er annar lögreglumaðurinn í þinghúsinu sem lætur lífið á innan við viku. Á miðvikudaginn lést Brian D. Sicknick eftir meiðsli sem hann varð fyrir er hann reyndi að stöðva æstan múginn sem braust inn í þinghúsið á meðan þingmenn voru að staðfesta kjörið í forsetakosningunum. Árás­ar­menn­irn­ir sem brutust þangað inn sprautuðu piparúða í augu Sicknicks og eftir það var hann sleg­inn í höfuðið með slökkvi­tæki.

mbl.is