Lögreglumanni hrósað fyrir hetjudáð

Stuðningsmaður Trumps í baráttu við lögregluna fyrir utan þinghúsið.
Stuðningsmaður Trumps í baráttu við lögregluna fyrir utan þinghúsið. AFP

Lögreglumaður í þinghúsi Bandaríkjanna er sagður hafa sýnt mikla hetjudáð er hann beindi æstum stuðningsmönnum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í átt frá þingsalnum eftir að þeir höfðu brotist inn í húsið.

Í meðfylgjandi myndskeiði sést þegar lögreglumaðurinn, Eugene Goodman, er einungis nokkrum skrefum frá múgnum sem hafði elt hann upp stiga. Goodman horfir þá í átt að innganginum að þingsalnum, þar sem þingmenn voru staddir, áður en hann lokkar fólkið á eftir sér í hina áttina, að sögn BBC.

Fimm manns, þar á meðal lögreglumaður, létust í innrásinni.

Goodman er sagður vera fyrrverandi hermaður sem sinnti herþjónustu í Írak. Lögreglan í þinghúsinu hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki staðið í stykkinu við að koma í veg fyrir að múgurinn kæmist inn í húsið.

Í myndskeiðinu, sem blaðamaður Huffington Post tók, sést þegar stuðningsmenn Trumps, sem eru allir hvítir á hörund, ganga ögrandi í átt að Goodman, sem er svartur á hörund. Maðurinn sem er fremstur í flokki í Q Anon-stuttermabol heitir Doug Jensen og er frá Iowa. Hann var síðar handtekinn fyrir aðild sína að innrásinni í þinghúsið.

Samskipti Goodmans við múginn áttu sér stað aðeins nokkrum mínútum áður en yfirvöldum tókst að loka þingsalinn af, að því er Washington Post greindi frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert