Vöruskortur á N-Írlandi vegna Brexit

Vöruflutningabíll á ferðinni á Norður-Írlandi.
Vöruflutningabíll á ferðinni á Norður-Írlandi. AFP

Matvöruverslanir á Norður-Írlandi hafa átt erfitt með að fylla hillur sínar af vörum síðan Bretar gengu formlega úr Evrópusambandinu um áramótin.

Þetta sagði John Martin, framkvæmdastjóri hjá samtökunum Road Haulage á Norður-Írlandi.

„Sum fyrirtæki hafa ákveðið að bíða með að dreifa vörum til Norður-Írlands vegna óvissunnar sem er uppi eða vegna þeirrar seinkunar sem hefur orðið,“ sagði hann.

Þrátt fyrir að magnið af þeim farmi sem er venjulega fluttur til landsins hafi verið „30 til 40 prósent af venjulega magninu“ vegna takmarkana af völdum kórónuveirunnar eru nýju kerfin í vandræðum með að ráða við nýju aðferðina sem notast er við til að flytja vörur frá meginlandi Bretlands, sagði hann.

„Það eru bara nokkrir dagar þangað til allt hrynur,“ bætti hann við.

Íbúar á Norður-Írlandi hafa bent á það á samfélagsmiðlum að takmarkað vöruúrval hefur verið í sumum matvöruverslunum þá ellefu daga sem eru liðnir síðan aðlögunartímabili Breta vegna Brexit lauk formlega.

Matvöruverslunin Sainsbury sagði í síðustu viku að „smávægilegt magn af vörum“ væri „ófáanlegt í skamma hríð þangað til búið er að staðfesta fyrirkomulag á landamærunum“.

mbl.is