Bretar ráðast gegn mannréttindabrotum í Xinjiang

Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta.
Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta. AFP

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, hefur tilkynnt um aðgerðir til að tryggja að bresk fyrirtæki og stofnanir taki ekki þátt í eða hagnist af mannréttindabrotum í Xinjiang-héraði í Kína.

„Sönnunum fyrir alvarlegum mannréttindabrotum, þar á meðal fangelsunar utan dómstóla og vinnuþrælkunar, hefur fjölgað. Þar má nefna sannanir úr skjölum frá ríkisstjórn Kína. Bresk stjórnvöld hafa ítrekað beðið Kínverja um að hætta þessu athæfi og framfylgja landslögum og alþjóðlegum skuldbindingum,“ segir í tilkynningu frá breska sendiráðinu á Íslandi.

„Með aðgerðunum er vonast til að skýr skilaboð verði send til Kína um að þessi mannréttindabrot séu óásættanleg.“

Fyrirtæki verði sektuð

Á meðal aðgerða sem gripið verður til er að endurskoða hvaða vörur skal senda frá Bretlandi til Xinjiang, auk þess sem fyrirtæki verða sektuð sem fylgja ekki lögum sem banna þrælahald.

„Sannanir fyrir miklum og alvarlegum mannréttindabrotum í Xinjiang gegn úígúr-múslimum eru víðtækar. Í dag tilkynnum við um ýmsar nýjar aðgerðir til að senda skýr skilaboð um að þessi mannréttindabrot séu óásættanleg og tryggja um leið að bresk fyrirtæki og stofnanir tengist þeim á engan hátt,“ er haft eftir Raab í tilkynningunni.

mbl.is