Merkel hissa á banngleði miðlanna

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, telur þróunina óheillavænlega.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, telur þróunina óheillavænlega. AFP

Stjórnmálaleiðtogar á borð við Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands hafa gagnrýnt samfélagsmiðlarisann Twitter fyrir að hafa þaggað niður í Donald Trump Bandaríkjaforseta með því að loka aðgangi hans á miðlinum.

Steffen Seibert, aðstoðarmaður Merkel, var inntur eftir viðbrögðum eftir að lokað var fyrir twitteraðgang forsetans á föstudaginn var. Þar sagði hann Merkel ekki telja heillavænlegt að tæknirisar skertu lögvarin réttindi, slíkt félli undir verksvið löggjafans en ekki stjórnenda á samfélagsmiðlum.

„Með hliðsjón af þessu telur kanslarinn ekki heillavænlegt að loka fyrir aðgang forsetans á hinum ýmsu miðlum,“ sagði hann. Á fimmtudag lokaði facebook einnig aðgangi Trumps fram að innsetningarathöfn Bidens og mögulega um ókomna tíð.

Taldi Seibert að miðlar ættu að eiga kost á vægari aðgerðum, eins og að merkja færslur, sem innihéldu ósannindi eða gætu hvatt til ofbeldis, með fána.

Þá hefur heilbrigðisráðherra Bretlands Matt Hancock sagt aðgerðir miðlanna vekja stórar spurningar:

„Mér finnst þetta vekja stórar og mikilvægar spurningar. Í þessu felst að samfélagsmiðlar eru farnir að ritskoða efni. Þá fer maður að spyrja sig hvaða reglur gildi um ritskoðun fjölmiðla og hvernig regluverki þeirra er háttað yfirhöfuð,“ sagði hann í samtali við fréttamiðilinn Sky News.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert