Notar prófílmynd af Trump á Twitter

Eduardo Bolsonaro er dyggur stuðningsmaður Trump.
Eduardo Bolsonaro er dyggur stuðningsmaður Trump. AFP

Sonur Jair Bolsonaro Brasilíuforseta, þingmaðurinn Eduardo Bolsonaro, hefur breytt prófílmynd sinni á Twitter og sett þangað mynd af Donald Trump.

Með þessu vill hann mótmæla ákvörðun samfélagsmiðilsins um að banna Bandaríkjaforsetann fyrrverandi.

Eduardo sakaði Twitter um „alræðisstefnu“ og sagðist ætla að nota myndina af Trump til frambúðar.

Skjáskot af Twitter-reikningi Eduardo Bolsonaro.
Skjáskot af Twitter-reikningi Eduardo Bolsonaro. Mynd/Skjáskot af Twitter

Twitter bannaði Trump á Twitter á föstudaginn eftir að æstur og ofbeldisfullur múgur sem studdi Bandaríkjaforseta ruddist inn í þinghús landsins á meðan verið var að staðfesta kjör Joes Biden í embætti Bandaríkjaforseta.

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Trump hefur ítrekað haldið því fram að hann hafi tapað kosningunum vegna kosningasvika án þess að hann eða kosningateymi hans hafi lagt fram nokkrar sannanir þess efnis. Alls hafa tapast um 60 dómsmál, bæði í ríkjum og hjá alríkinu, þar sem reynt var að snúa við kosningaúrslitunum. Biden, sem sver embættiseið 20. janúar, hlaut yfir sjö milljónum fleiri atkvæði en Trump og atkvæði yfir 70 fleiri kjörmanna.

Jair Bolsonaro.
Jair Bolsonaro. AFP

Vangaveltur um sendiherrastöðu

Eduardo Bolsonaro sagði að „málfrelsið hafi verið myrt“ og setti spurningarmerki við hvers vegna Trump var rekinn af Twitter en ekki Nicolas Madura, forseti Venesúela. Þegar Jair Bolsonaro tók við embætti forseta Brasilíu í janúar 2019 höfðu verið uppi vangaveltur um að Eduardo yrði sendiherra í Washington vegna sterkra tengsla hans við Trump-fjölskylduna.

Jair Bolsonaro var sá síðasti af stóru þjóðarleiðtogunum til að óska Biden til hamingju með sigurinn, rúmum mánuði eftir kosningarnar. Trump og Bolsonaro, sem hafa báðir verið álitnir popúlistar, hafa verið nánir samstarfsmenn síðan Brasilíuforsetinn komst til valda.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert