Pompeo aflýsir síðustu utanlandsferðinni

Pompeo hefur einsett sér að tryggja snurðulaus valdaskipti í Hvíta …
Pompeo hefur einsett sér að tryggja snurðulaus valdaskipti í Hvíta húsinu. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur aflýst síðustu utanlandsferð sinni í embætti. Samkvæmt utanríkisráðuneytinu er ástæðan sú að ráðherrann verði til staðar til að aðstoða við friðsamleg og snurðulaus valdaskipti.

Til stóð að Pompeo færi í stutta heimsókn til Brussel til þess að hitta forstjóra Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, sem og ráðamenn í Belgíu.

Kæruferli heldur áfram á morgun

Meðal verkefna Pompeo fram að valdaskiptunum er að ákveða hverjir úr starfsliði núverandi stjórnar verða tímabundið áfram í Hvíta húsinu til þess að aðstoða Joe Biden, verðandi forseta, við að koma sér inn í embættið. 

Demókratar á Bandaríkjaþingi hafa sett mikinn þrýsting á Mike Pence varaforseta um að virkja 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna til að vísa Donald Trump, sitjandi forseta, úr embætti, þar sem þeir telja hann óhæfan í kjölfar þess að múgur stuðningsmanna hans réðst inn í þinghúsið í síðustu viku og gerði tilraun til valdaráns.

Þessi hugmynd demókrata þykir þó langsótt og ólíkleg til árangurs, en að öðrum kosti ætla þeir að halda áfram kæruferli á hendur Trump vegna embættisbrota á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert