Bólusetja þúsundir í Disneylandi

Disneyland.
Disneyland. AFP

Skemmtigarðurinn Disneyland í Kaliforníu-ríki verður nýttur sem miðstöð bólusetninga við Covid-19. Til stendur að hefja bólusetningar í garðinum síðar í vikunni. 

Disneyland er á meðal nokkurra stórra dreifingarsvæða fyrir bóluefni sem til stendur að opna í Kaliforníu, sem hefur verið suðupunktur Covid-19-smita í Bandaríkjunum síðustu vikur.

Einungis þriðjungur af því bóluefni sem ríkið hefur fengið afhent hefur verið nýttur. 40.000 ný tilfelli kórónuveirunnar greindust þar á mánudag og 264 létust. 

Til stendur að bólusetja þúsundir daglega í Disneyland-garðinum. Garðurinn hefur verið lokaður fyrir gestum síðan í mars, ólíkt Disney-garðinum í Flórída sem hefur verið opinn með takmörkunum síðan í júlí. 

Á meðal annarra bólusetningarsvæða verður hafnaboltavöllurinn Dodger Stadium. 

mbl.is