Neydd til að þiggja bólusetningu

AFP

Dómari í borginni Santiago de Compostela á norðvesturhluta Spánar ákvað í dag að skylda konu til þess að þiggja bólusetningu við kórónuveirunni. Konan býr á hjúkrunarheimili í borginni og hefur takmarkaða getu til þess að neita eða þiggja bólusetningu sjálf, en dóttir hennar hafði mótmælt því að móðir sín yrði bólusett.

Hjúkrunarheimilið fór því í hart og úr varð að dómari ákvað að konan skyldi bólusett, ekki til þess að tryggja öryggi annarra heldur til þess að tryggja hennar eigið öryggi. Dómarinn sagði enda að mögulegar aukaverkanir væru hættulausar í samanburði við hættuna sem stafar af kórónuveirunni sjálfri.

Á Spáni er nokkuð almenn ánægja með bólusetningar og þar segjast um 62% landsmanna vera fullvissir um að þeir muni þiggja bólusetningu við kórónuveirunni.

Spánn var eitt þeirra landa í Evrópu sem fann einna fyrst fyrir harkalegum eyðileggingarmætti kórónuveirunnar. Þar hafa nú rétt rúmlega 2 milljón manna greinst og rétt ríflega 51 þúsund hafa látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert