Ný afbrigði greinast áfram

Tedros Adhanom, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).
Tedros Adhanom, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). AFP

Hið svokallaða breska afbrigði kórónuveirunnar, sem greindist fyrst 14. desember, hefur nú greinst í 50 löndum samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Afbrigðið er talið vera á bilinu 50 til 70% meira smitandi. 

Annað afbrigði, sem kennt er við Suður-Afríku og er einnig bráðsmitandi, hefur greinst í tuttugu löndum. Þá hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sagt að nýtt afbrigði sem greinst hefur í Japan þarfnist frekari rannsóknar. 

„Því meira sem veiran dreifist, þeim mun fleiri tækifæri fær hún til að breytast,“ segir stofnunin í vikulegri skýrslu. 

Ekki er talið að ný afbrigði, bæði það breska og suður-afríska, valdi alvarlegri veikindum en veiran sem greinst hefur síðan í mars. Aukin smithætta geti aftur á móti leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfi. 

Japönsk yfirvöld tilkynntu til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar 9. janúar að nýtt afbrigði hafði greinst í fjórum ferðamönnum sem komu til landsins frá Brasilíu. Afbrigðið greindist í tveimur fullorðnum og tveimur börnum. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að ný afbrigði veirunnar sýni greinilega mikilvægi skimana og raðgreiningar veira. 

mbl.is