Verður Trump ákærður?

AFP

Einn af leiðtogum repúblikana í fulltrúadeildinni, Liz Cheney, greindi frá því í gærkvöldi að hún myndi greiða atkvæði með því að Donald Trump Bandaríkjaforseta yrði vikið frá völdum. Fulltrúadeildin samþykkti í nótt að fara fram á það við Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, að hann beiti 25. viðaukagrein stjórnarskrárinnar til að reka Trump frá völdum. Atkvæði féllu 223-205 en atkvæðagreiðslan var aðeins táknræn því Pence hafði áður lýst því yfir að hann myndi ekki beita heimildinni.

Cheney segist hafa tekið þessa ákvörðun í kjölfar árásarinnar á þinghúsið en fyrr um daginn hafði Trump sagt að hann bæri enga ábyrgð á aðgerðum stuðningsmanna sinna í síðustu viku. Joe Biden verður settur í embætti 20. janúar. Í dag verða greidd atkvæði um hvort ákæra eigi Trump fyrir embættisglöp í starfi með því að hvetja til óeirða.

Liz Cheney.
Liz Cheney. AFP

Með ákvörðun sinni að greiða atkvæði um að Trump verði vikið úr embætti er Cheney fyrsti leiðtogi í flokki forseta Bandaríkjanna sem hefur stutt slíkt frá því Richard Nixon var forseti Bandaríkjanna. Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gærkvöldi segir að aldrei áður hafi forseti Bandaríkjanna svikið eið sinn við stjórnarskrá landsins jafn alvarlega og nú var gert. 

Tveir aðrir þingmenn repúblikana í fulltrúardeildinni, John Katko og Adam Kinzinger, greindu einnig frá því að þeir myndu greiða atkvæði með tillögunni.

Kevin McCarthy.
Kevin McCarthy. AFP

Leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, Kevin McCarthy, er náinn bandamaður Trumps og hefur lýst því yfir að hann sé andvígur ákærunni en hann ætli ekki að skrá niður og hvetja þingmenn flokksins til þess að greiða atkvæði gegn aðgerðunum. 

Samkvæmt  New York Times hefur leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell, lýst því yfir við nána samstarfsmenn að hann sé hlynntur ákæru því þannig verði auðveldara fyrir Repúblikanaflokkinn að losa sig við Trump úr flokknum. McConnell á að hafa sagt að hann teldi að Trump hefði brotið af sér í starfi samkvæmt frétt Washington Post.

Ef fulltrúadeildin samþykkir að ákæra Trump fyrir brot í starfi verður hann að standa fyrir máli sínu í öldungadeildinni en hlutverk deildanna er ólíkt þegar kemur að því að ákæra embættismenn fyrir brot í starfi. Þá gegnir öldungadeildin hlutverki dómstóls. Sé forseti Bandaríkjanna ákærður fyrir brot í embætti er forseti Hæstaréttar í forsæti í öldungadeildinni. Tvo þriðju hluta atkvæða viðstaddra þarf til að sakfella í slíku máli. Þrisvar sinnum hefur forseti verið ákærður fyrir brot í starfi en sýknaður í öll skiptin. Síðast var það Trump sjálfur og ef fulltrúadeildin samþykkir ákæruna er hann fyrsti forseti Bandaríkjanna sem er ákærður fyrir embættisbrot í tvígang.  

Mike Pence.
Mike Pence. AFP

Í öldungadeildinni er varaforseti Bandaríkjanna formlega forseti en í fulltrúadeildinni er deildarforseti kjörinn af þingmönnunum. Forseti öldungadeildar hefur þó ekki atkvæðisrétt nema oddaatkvæði þurfi, ólíkt forseta fulltrúadeildar sem hefur alltaf verið kjörinn þingmaður og því með atkvæðisrétt. Hvorugur gegnir þó almennt því starfi dags daglega að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Ef Trump verður ákærður þýðir það að hann getur aldrei boðið sig fram til embættis forseta að nýju en hann hefur ýjað að framboði árið 2024.

New York Times segir að allt að 20 öldungadeildarþingmenn séu opnir fyrir því að sakfella forsetann. Til þess að hann verði fundinn sekur þurfa 17 þingmenn úr Repúblikanaflokknum og allir þingmenn Demókrataflokksins að greiða atkvæði með tillögunni. 

Vísindavefur Háskóla Íslands

BBC

New York Times

Washington Post

mbl.is

Bloggað um fréttina