Ákæran gæti orðið Biden fjötur um fót

Donald Trump forseti og Joe Biden verðandi forseti.
Donald Trump forseti og Joe Biden verðandi forseti. AFP

Ákæra fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á hendur Donald Trump Bandaríkjaforseta gæti orðið til þess að Joe Biden, verðandi forseta, reynist erfitt að sameina þjóðina. Nú þegar er orðrómur á kreiki um að nokkrir repúblikanar í öldungadeild þingsins hyggist kjósa með sakfellingu Trumps.

Hér má lesa fréttaskýringu BBC í heild sinni um málið.

Í gær, nákvæmlega einni viku eftir að stuðningsmenn forsetans réðust inn í þinghúsið, komu þingmenn fulltrúadeildarinnar þar saman og kusu með tillögu um að ákæra Trump fyrir embættisbrot. 

Þar með varð Trump fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður í tvígang fyrir embættisbrot. Það styttist í að Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, taki við embætti og hefur leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni sagt að ekki sé mögulegt fyrir deildina að halda  „sann­gjörn eða al­var­leg“ rétt­ar­höld yfir Trump Banda­ríkja­for­seta á þeim stutta tíma sem eftir er af kjörtímabili hans. 

Hefur hingað til staðið af sér hneyksli

Trump er ákærður fyrir embættisbrot á þeim grundvelli að hann hafi hvatt til mótmæla sem leiddu af sér innrás í þinghúsið. Málinu er nú vísað til öldungadeildar bandaríska þingsins. Þar munu þingmenn mynda kviðdóm sem yfirdómari Hæstaréttar er yfir. 

Fyrir rúmu ári ákærði fulltrúadeild þingsins Trump fyrir embættisbrot án þess að þurfa eitt einasta atkvæði repúblikana. Þegar fulltrúadeildin kaus um ákæruna nú kusu tíu flokkssystkini Trumps með ákærunni. 

Frá undirritun ákærunnar á hendur Trump.
Frá undirritun ákærunnar á hendur Trump. AFP

Nú þegar er orðrómur á kreiki um að sumir repúblikanar öldungadeildarinnar séu opnir fyrir því að greiða atkvæði um að sakfella forsetann. Þó er útlit fyrir að forsetinn eigi enn dygga stuðningsmenn innan Repúblikanaflokksins. 

Trump hefur hingað til staðið af sér hneyksli og deilur sem myndu verða flestum öðrum stjórnmálamönnum að falli. Nú gæti verið komið að hneyksli sem muni fella hann en það er þó ekki víst. 

Biden gengur inn í erfiðar aðstæður

Þegar Biden tekur við 20. janúar næstkomandi þarf hann að takast á við gríðarlega erfiðar aðstæður í samfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins. Faraldurinn dregur um 4.000 Bandaríkjamenn til dauða á degi hverjum og hefur farið illa með efnahaginn. 

Nú þarf Biden að takast á við stöðuna á sama tíma og þingið reynir að dæma forvera hans fyrir embættisbrot. 

Repúblikanar vöruðu við því í gær að ákæruferlið muni sundra Bandaríkjamönnum enn frekar á tíma sem þjóðin þarf á hvíld að halda. Ákæruferlið mun, að sögn Repúblikana, gera Biden enn erfiðara en ella að efna loforð sitt um að sameina þjóðina. 

mbl.is

Bloggað um fréttina