Bólusetja ungt fólk fyrst

AFP

Bólusetningar við Covid-19 eru hafnar í Indónesíu, en fyrirkomulagið þar er nokkuð ólíkt því sem tíðkast hefur í Evrópu og Bandaríkjunum. Í stað þess að bólusetja eldra fólk og aðra viðkvæma hópa strax á eftir heilbrigðisstarfsfólki, hafa yfirvöld ákveðið að ungt fólk á vinnumarkaði verði í öðrum forgangshópi. Í hópinn falla einstaklingar á aldrinum 18 til 59 ára. 

Joko Widodo, forseti Indónesíu, var fyrstur til að fá bólusetningu í landinu í dag. Widodo er 59 ára, en varaforseti landsins, Ma'ruf Amin, verður ekki bólusettur strax vegna aldurs, en hann er 77 ára. 

Prófessor Amin Soebandiro, sem var í ráðgjafahópi sem ráðlagði stjórnvöldum að fylgja „ungir fyrst“ stefnu, segir að það sé skynsamlegra að bólusetja fyrst vinnandi fólk sem „fer út úr húsi og út um allt og síðan aftur til fjölskyldna sinn á kvöldin.“

„Við byrjum á þeim sem eru líklegastir til að dreifa veirunni,“ segir Soebandiro við BBC. Hann heldur því fram að þessi aðferð sé líklegri til að leiða til hjarðónæmis. 

Um 270 milljónir búa í Indónesíu, en hvergi í Suðaustur-Asíu er uppsafnaður fjöldi smita jafnmikill og þar. Um 80% smitaðra frá upphafi faraldursins eru á vinnumarkaði. 

Í Indónesíu búa fleiri kynslóðir oft saman á einu heimili. Stjórnvöld halda því fram að með því að bólusetja yngra vinnandi fólk fyrst, minnki líkurnar á því að smit berist inn á heimili þar sem eldra fólk heldur til yfir daginn. 

„Það er enn frekari ávinningur af þessari aðferð, með því að bólusetja fólk á aldrinum 18 til 59 ára getum við verndað eldra fólk sem það býr með,“ segir Siti Nadia Tarmizi, læknir hjá heilbrigðisráðuneyti Indónesíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert