Fyrsta dauðsfallið í átta mánuði

Kínverjar greindu frá fyrsta dauðsfallinu af völdum kórónuveirunnar í átta mánuði í dag. Á sama tíma er nefnd vísindamanna Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) komin til Kína til að rannsaka uppruna Covid-19.

Sérfræðingar koma saman í höfuðstöðvum WHO í Genf í dag til þess að ræða mikla fjölgun nýrra smita af nýju afbrigði veirunnar sem er bráðsmitandi. Yfir 91 milljón hefur smitast af Covid-19 og tæplega tvær milljónir látist. Talið er að þessar tölur séu vanáætlaðar. Stór hluti heimsins glímir nú við aðra eða þriðju bylgju faraldursins með tilheyrandi aðgerðum sem hafa afar slæm áhrif á efnahag landanna. 

Í Kína, þar sem veiran kom fyrst fram, er aftur beitt hörðum sóttvarnareglum og milljónir íbúa í útgöngubanni. Fyrstu fréttirnar af dauðsfallinu þar komu á samfélagsmiðlum og myllumerkið nýtt dauðsfall í Hebei hefur þegar fengið yfir 100 milljónir áhorfa á Weibo-samfélagsmiðlinum – Twitter miðill Kínverja. 

Sendinefnd WHO kom til Wuhan í gær til að rannsaka upptök Covid-19 en veiran greindist fyrst í borginni í desember 2019. 

Að sögn leiðtoga hópsins, Peter Ben Embarek, munu þau byrja á því að fara í tveggja vikna sóttkví á hóteli áður en þau geta hafið rannsóknir sínar. Hann varar við því að það geti tekið langan tíma að komast að raun um hvað hafi gerst. 

Yfirvöld í Peking hafa sagt að það sé ekki víst að veiran eigi uppruna sinn í Wuhan þrátt fyrir að hún hafi fyrst komið fram þar. 

mbl.is