New York-borg segir skilið við Trump

Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, fráfarandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Yfirvöld í New York-borg í Bandaríkjunum hafa ákveðið að slíta öll viðskiptatengsl við félög sem tengjast Trump-samsteypunni. Borgin hefur bæst í sístækkandi hóp sem hefur ákveðið að hætta öllu samstarfi við fyrirtæki sem bera nafn Trumps, fráfarandi forseta, í kjölfar árásarinnar sem var gerð á þinghúsið í Washington í liðinni viku. 

Bill de Blasio, borgarstjóri New York.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York. AFP

„Héðan í frá mun New York-borg ekki hafa neitt með Trump-samsteypuna að gera,“ sagði Bill de Blasio, borgarstjóri New York, í gær. Hann réttlætti þá ákvörðun, bæði lagalega og siðferðilega séð, með því að vísa til þess að Trump hefði með orðum sínum hvatt stuðningsfólk sitt til að gera innrás í þinghúsið sama dag og Bandaríkjaþing kom saman til að staðfesta kjör Joes Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna. 

Þetta kemur fram í umfjöllun Financial Times. 

Frelsisstyttan fræga í New York.
Frelsisstyttan fræga í New York. AFP

„Lögmennirnir okkar hafa farið yfir þetta. Þetta var eins skýrt og klukknahljómur, að þetta hafi verið grundvöllur að því að rifta samningunum,“ sagði borgarstjórinn. 

Trump-samsteypan hefur m.a. gert samkomulag við borgina um að reka tvö skautasvell og hringekju í Central Park-almenningsgarðinum, sem og golfvöll í Bronx-hverfi borgarinnar. Talið er að samkomulagið hafi skilað Trump-samsteypunni um það bil 17 milljónum dala árlega, sem samsvarar um 2,1 milljarði króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert