Skólum, börum og veitingastöðum verður lokað frá og með deginum í dag á Kúbu og þar í landi hætta almenningssamgöngur að ganga klukkan 21 á kvöldin. Veitingastaðir geta aftur á móti boðið upp á heimsendingu og að fólk taki með sér matinn heim.
Nýjar aðgerðir eru tilkomnar vegna fjölgunar nýrra smita en í gær greindu yfirvöld frá 550 nýjum smitum á aðeins sólarhring. Alls hafa yfir 16 þúsund smit komið upp á Kúbu og af þeim hafa 158 látist. Alls eru íbúar Kúbu 11,2 milljónir talsins.
Háar fjársektir eru við sóttvarnabrotum að því er fram kemur í ríkisdagblaðinu Tribuna de la Habana. Að sögn menntamálaráðherra landsins, Ena Elsa Velazquez, verða kennslustundir sendar út í sjónvarpi.
Skólum var lokað í Havana frá því um miðjan mars þangað til í október í fyrra en annars staðar í landinu hófu þeir starfsemi að nýju í september.