Trump heldur eftir greiðslum til Giuliani

Rudy Guiliani, lögmaður Donald Trump og fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, …
Rudy Guiliani, lögmaður Donald Trump og fyrrverandi borgarstjóri New York-borgar, hefur verið einn helsti stuðningsmaður forsetans um árabil. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti og lögmaður hans Rudy Giuliani eru komnir í hár saman eftir að forsetinn fyrirskipaði starfsfólki sínu að halda eftir greiðslum til lögmannsins vegna útlagðs kostnaðar sem varð til er Giuliani ferðaðist til nokkurra sveifluríkja þar sem hann reyndi að vefengja úrslit forsetakosninganna sem fóru fram í nóvember.

Giuliani fór fyrir lögfræðiteymi forsetans og lét mikið að sér kveða eftir að ljóst var að Trump hefði lotið í lægra hald fyrir Joe Biden. Lögmaðurinn hefur lengi verið einn helsti stuðningsmaður forsetans en nú er samband þeirra sagt hafa versnað til muna. Trump er sagður móðgaður yfir launakröfum Guiliani sem er sagður krefjast 20 þúsund Bandaríkjadala á dag, sem samsvarar rúmlega 2,5 milljónum króna. The Guardian greinir frá.

Trump er sagður upplifa sig sem einan á báti í kjölfar árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna 6. janúar sl. en margir stuðningsmenn hans hafa snúið baki við honum. Meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings samþykkti í gær að ákæra forsetann fyrir embættisafglöp í starfi fyrir að hafa hvatt til óeirða.

Telur Trump að nokkrir í innsta hring hans hafi ekki stutt nægilega við bakið á honum síðan þá. Meðal þeirra eru Kayleigh McEnany, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, Jared Kushner, tengdasonur Trumps og ráðgjafi, og Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins. Ósættið við Giuliani er talið eiga rætur að rekja til meðal annars þess hversu svikinn forsetinn telur sig vera af sínum nánustu stuðningsmönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert