Flugritarnir endurheimtir

AFP

Tekist hefur að endurheimta flugrita farþegaþotunnar sem brotlenti með 62 um borð skömmu eftir flugtak á Indónesíu snemma á laugardagsmorgun. 

Yfirmaður nefndar um öryggismál í samgöngum, Soerjanto Tjahjono, segir að báðir flugritarnir séu í góðu ástandi og byrjað sé að rannsaka gögn þeirra. 

Flugritar eða svörtu kassarnir eins og þeir eru líka kallaðir eru nokkurs konar upptökutæki. Þeir byrja að skrá gögn fyrir flugtak. Upptakan varir meðan á flugi stendur og þangað til flugvélin lendir eða hrapar. Flugritar eru tvenns konar: ferðariti (e. Flight Data Recorder) og hljóðriti (e. Cockpit Voice Recorder), segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Ferðariti skráir til dæmis flughraða og flughæð flugvélarinnar, hröðun, snúning vélar, hita innan vélar og utan og svo framvegis. Upplýsingarnar sem ferðritinn skráir eru síðan notaðar til að skilja atburðarrásina og hvað fór úrskeiðis ef flugvél ferst eða henni hlekkist á. Á grundvelli þeirra er til dæmis hægt að útbúa myndband sem sýnir atburðarásina (e. Video Animation). 

Hljóðritinn tekur upp allt hljóð í flugstjórnarklefanum, þar á meðal samtöl áhafnarinnar, samskipti hennar við flugumferðarstjórn og ýmis hljóð frá flugvélinni sjálfri. Flestir hljóðritar geyma síðustu þrjátíu mínúturnar af flugferðinni en stafrænir hljóðritar geta geymt allt að tveggja klukkustunda langa hljóðupptöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert