Gögnum um bóluefni lekið til að vekja ótta

Evrópskar höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Pfizer í Belgíu.
Evrópskar höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins Pfizer í Belgíu. AFP

Tölvuþrjótar sem stálu upplýsingum frá Evrópsku lyfjastofnuninni hafa lekið hluta þeirra á netið. Evrópska lyfjastofnunin segir að búið sé að eiga við gögnin og falsa innihald þeirra til þess að draga úr trausti almennings á bóluefni gegn kórónuveirunni.

Greint var frá því í desember að Evrópska lyfjastofnunin hefði orðið fyrir stórri tölvuárás og hefðu þrjótarnir komist yfir upplýsingar um bóluefni lyfjafyrirtækjanna Pfizer/BioNTech og Moderna.

Stofnunin hefur nú greint frá því að rannsókn hafi leitt í ljós að hluta þeirra hafi verið lekið á netið. Þar á meðal eru tölvupóstsamskipti starfsmanna frá í nóvember, sem fjalla um matsferli bóluefnanna, að því er segir í yfirlýsingu stofnunarinnar. „Sum tölvupóstsamskiptin hafa verið fölsuð fyrir birtingu á þann hátt að það gæti dregið úr trausti til bóluefnanna,“ bætir stofnunin við.

Hollenska ríkissjónvarpsstöðin NOS hefur yfirfarið gögnin, sem lekið var á rússneskar vefsíður. Í þeim segir meðal annars að lyfjastofnunin hafi verið undir mikilli pressu frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að samþykkja bóluefnin svo fljótt sem auðið er. Þó var tekið fram að sjónvarpsstöðin hefði ekki getað sannreynt hvort gögnin væru ófölsuð.

Lyfjastofnunin segist hafa verið í stöðugum samskiptum við framkvæmdastjórnina meðan á mati á bóluefninu stóð, og að þrátt fyrir að mikið lægi á hefði alltaf verið samstaða innan sambandsins um að slaka ekki á öryggisstöðlum.

mbl.is