Hollenska ríkisstjórnin segir öll af sér

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hjólar til konungshallarinnar til að tilkynna …
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hjólar til konungshallarinnar til að tilkynna konungi um afsögn sína. AFP

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, og öll hans ríkisstjórn hefur sagt af sér eftir að þúsundir fjölskyldna voru ranglega sakaðar um að hafa svikið út barnabætur og fyrirskipað að greiða þær til baka.

Heilu fjölskyldurnar voru beittar órétti á nokkurrar hliðstæðu og skildar eftir bjargarlausar af skattasérfræðingum, stjórnmálamönnum og embættismönnum, segir í ályktun hollenskra þingmanna. Margar fjölskyldna sem ranglega voru sakaðir um bótasvik eru erlendar og eru hundruð þeirra sagðar hafa lent í fjárhagsvandræðum vegna ásakananna.

Mistökin ná aftur til ársins 2012 og er talið að allt að 26.000 fjölskyldur hafi orðið fyrir barðinu á miskunnarlausu kerfinu.

„Saklaust fólk hefur verið þjófkennt og líf þeirra eyðilagt,“ sagði Rutte á blaðamannafundi fyrr í dag er hann tilkynnti um afsögn sína. Tók hann fulla ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru innan stjórnkerfisins og sagði ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa verið einróma. Hefur hann því skilað afsagnarbréfi til konungs.

Situr fram að kosningum

Ríkisstjórnin mun þó sitja áfram fram að kosningum sem þegar voru fyrirhugaðar í mars, og aðeins fjármálaráðherrann Eric Wiebes lætur af störfum. Spurður hvort afsögnin væri því einungis táknræn, þvertók Rutte þó fyrir það. Því hefur þó verið velt fram að með ákvörðuninni hafi Rutte ekki síst viljað forða ríkisstjórninni frá yfirvofandi vantrauststillögu.

Rutte, sem er formaður frjálslynda hægriflokksins VVD, hefur verið forsætisráðherra Hollands. Flokkur hans fékk um þriðjung atkvæða í síðustu kosningum en mælist í könnunum með um 40% um þessar mundir. Óvíst er þó hver áhrif nýjustu vendinga verða.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hollensk ríkisstjórn segir af sér í heilu lagi eftir að hafa tekið sameiginlega ábyrgð á mistökum. Árið 2002 sagði ríkisstjórnin af sér eftir að stjórnvöld og yfirvöld hersins voru gagnrýnd fyrir að hafa mistekist að koma í veg fyrir fjöldamorð á múslimum í Srebrenica í Bosníustríðinu sjö árum áður.

Hvað fór úrskeiðis?

Mistökin fólust í stórfurðulegri smámunasemi í skilgreiningu á svikum. Foreldrar voru tilkynntir fyrir svik fyrir minnstu mistök við umsóknir um barnabætur, svo sem að gleyma að skrifa undir skjöl. Var þeim gert að greiða allt að tugþúsundir evra (milljónir króna) til baka án þess að hafa nokkurn andmælarétt. 

Á síðasta ári viðurkenndi hollenski skatturinn að um 11.000 fjölskyldur hefðu sætt sérstöku eftirliti fyrir það eitt að vera með tvöfalt ríkisfang. Viðurkenningin varð til þess að styrkja enn frekar trú margra að kerfisbundnir fordómar væru til staðar innan stjórnkerfis Hollands, svo sem víða annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert