Sá tólfti tekinn af lífi

Corey Johnson.
Corey Johnson. Af vef deathpenaltyinfo.org

Corey Johnson var tekinn af lífi af bandarísku alríkisstjórninni í Terre Haute alríkisfangelsinu í Indiana í nótt. Seint í kvöld verður Dustin Higgs tekinn af lífi í sama fangelsi af alríkisstjórninni. Þeir eru þeir síðustu sem alríkisstjórnin lætur taka af lífi áður en Donald Trump fer frá völdum sem forseti Bandaríkjanna. 

Bæði Johnson og Higgs greindust með Covid-19 í síðasta mánuði líkt og 20 aðrir fangar í Terre Haute fangelsinu. Óskað var eftir því að aftökunum yrði frestað vegna þess hversu veikburða lungu þeirra eru vegna veikindanna og talið að aftökuaðferðin, að dæla í þá lyfjum, yrði svo kvala­full­ að hún stæðist ekki ákvæði stjórn­ar­skrár. Ekki var fallist á það af hálfu hæstaréttar. 

Terre Haute alríkisfangelsið í Indiana.
Terre Haute alríkisfangelsið í Indiana. AFP

Corey Johnson var félagi í glæpasamtökum sem áttu aðild að tíu morðum í Virgina árið 1992. Hann var dæmdur til dauða fyrir aðild að sjö þeirra. Johnson var 52 ára er hann lést klukkan 23:34 að staðartíma, klukkan 4:34 að íslenskum tíma.

Hann beindi orðum sínum til fjölskyldna fórnarlamba sinna og sagðist hafa átt að biðjast fyrirgefningar fyrr. Hann hafi aftur á móti ekki vitað hvernig hann ætti að gera það. Hann hafi alltaf leitað að auðveldustu leiðinni og fyrirmyndirnar hafi verið af þeim toga. „Ég var blindur og heimskur,“ og bætir við í yfirlýsingu sem verjendur hans birtu: „Ég er ekki sami maður og ég var.“

Í kvöld stendur til að taka Higgs af lífi en hann er 48 ára gamall. Hann var dæmdur fyrir að hafa rænt og drepið þrjár ungar konur skammt frá Washington árið 1996.  

Á þriðjudag frestaði dómari aftökum þeirra um nokkrar vikur þar sem lungu þeirra hefðu ekki jafnað sig eftir Covid-19 og innspýting pentobarbital geti valdið svo miklum kvölum að það bryti gegn stjórnarskrá landsins. Lyfið er af flokki barbitura­te lyfja sem slæva miðtauga­kerfið. Lyfið get­ur haft slævandi áhrif en í stór­um skömmt­um er það ban­vænt.

Áfrýjunardómstóll sneri við ákvörðun dómsins á miðvikudag og hæstiréttur úrskurðaði í gærkvöldi að aftakan á Johnson mætti fara fram.

Verjendur Johnson gagnrýndu hæstarétt og alríkisstjórnina harkalega en miklar breytingar hafa verið gerðar á skipan dómstólsins í valdatíð Trumps. Nú eru sex íhaldssamir dómarar af níu í hæstarétti og hafa þeir heimilað í öllum tilvikum sem þess hefur verið óskað að fangar verði teknir af lífi á vegum alríkisstjórnarinnar.

Frá því í júlí hefur stjórn Trumps tekið tólf fanga af lífi eftir 17 ára hlé frá aftökum á vegum alríkisstjórnarinnar og Higgs verður sá 13. Meðal þeirra er Lisa Montgomery sem var tekin af lífi á þriðjudag. Hún var fyrsta konan sem var tekin af lífi af alríkisstjórninni í tæp 68 ár. 

„Faðir minn hefði orðið 92 ára á föstudag. Ekkert getur varvirt arfleið hans jafn mikið og ef þessar aftökur ná fram að ganga,“ skrifar Martin Luther King III, sonur mannréttindaleiðtogans Marin Luther King, í Washington Post. 

Pro Publica

New York Times

CNN

Deathpenaltyinfo

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert