Skimun og sóttkví við bresku landamærin

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ekki verður hægt að fljúga til Bretlands frá og með mánudegi nema að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi áður en haldið er upp í flugvél. Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti um þessar breytingar í dag, föstudag, og verða þær í gildi til 15. febrúar hið minnsta.

Sömuleiðis verður öllum farþegum, sama hvaðan þeir koma, gert að fara í tíu daga sóttkví við komuna til landsins. Hingað til hafa farþegar frá löndum þar sem lítið er um kórónuveirusmit, svo sem Íslandi, sloppið við sóttkvína.

Í dag tók einnig gildi bann við komu ferðamanna frá Suður-Ameríku og Portúgal til landsins, en það er sett af ótta við nýtt kórónuveiruafbrigði, sem kennt hefur verið við Brasilíu.

Johnson sagði á blaðamannafundi í dag að mikilvægt væri að bregðast skarpt við nú á sama tíma og Bretar næðu jafnt og þétt árangri í bólusetningum. „Það er einmitt út af von okkar um bóluefnið, og áhættunni af nýju afbrigði veirunnar frá útlöndum sem við bregðumst við með þessum hætti til að halda afbrigðunum utanlands.“

mbl.is