13 aftökur á sex mánuðum

Dustin Higgs var tekinn af lífi í nótt, 13 fanginn …
Dustin Higgs var tekinn af lífi í nótt, 13 fanginn sem bandaríska alríkisstjórnin tekur af lífi á sex mánuðum. Ljósmynd fangelsið í Terre Haute

Bandaríska alríkið tók af lífi þrettándu manneskjuna á hálfu ári í dag. Þetta var um leið síðasta aftakan í valdatíð Donalds Trumps í embætti forseta. Joe Biden, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna 20. janúar, er á móti dauðarefsingum ólíkt forvera sínum í starfi.

Dustin Higgs, 48 ára gamall fangi, var tekinn af lífi með banvænni sprautu í alríkisfangelsinu í Terre-Haute í Indiana nokkrum klukkustundum eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði því að fresta aftökunni.

New York Times segir að hann hafi verið lýstur látinn klukkan 1:23 að staðartíma í nótt, klukkan 6:23 í morgun að íslenskum tíma, og vísar þar í tilkynningu frá fangelsismálastofnun. 

Higgs bauð þremur ungum konum í íbúð sína í janúar 1996 en hann bjó skammt frá höfuðborginni, Washington. Jafnframt bauð hann tveimur vinum sínum þangað. 

Þegar ein kvennanna hafnaði honum þegar hann reyndi við hana bauðst hann til að keyra þær heim en þess í stað stöðvaði hann bifreiðina í fáförnu náttúrufriðlandi fyrir utan borgina.

Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu fyrirskipaði hann vini sínum að skjóta konurnar þrjár. Árið 2000 var hann dæmdur til dauða fyrir mannrán og morð. Maðurinn sem skaut konurnar var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn.

Lögmaður Higgs, Shawn Nolan, segir í bænaskjali sem hann sendi til Trumps að það hafi verið rangt að dæma Higgs í þyngri refsingu en þann sem framdi verknaðinn.

Áður hafði dómari úrskurðað að fresta ætti aftökunni vegna þess að Higgs smitaðist af Covid-19 og að vegna áhrifa veirunnar á lungu hans myndi hann að öllum líkindum kveljast mjög þegar lyfinu yrði dælt í hann. Dómsmálaráðuneytið áfrýjaði niðurstöðunni og hafði betur. 

Í júlí hóf alríkisstjórnin að fullnusta dauðadóma eftir að það hafði ekki verið gert í 17 ár. Meðal annars var Lisa Montgomery tekin af lífi fyrr í vikunni en hún er fyrsta konan í tæp 70 ár sem er tekin af lífi af alríkisstjórn landsins. 

Fyrsta aftakan fór fram 14. júlí er Daniel Lewis Lee var tekinn af lífi. Allar aftökurnar 13 voru í Terre Haute-fangelsinu enda eina fangelsi alríkisstjórnarinnar þar sem virkur aftökuklefi fyrirfinnst. 

mbl.is