Búast við mótmælum í öllum 50 ríkjum

Girðing hefur verið sett upp kringum þinghús Bandaríkjaþings.
Girðing hefur verið sett upp kringum þinghús Bandaríkjaþings. AFP

Viðbúnaður er í öllum ríkjum Bandaríkjanna auk Washingtonumdæmis vegna mögulegra vopnaðra mótmæla um helgina í aðdraganda þess að Joe Biden verður svarinn í embætti forseta á miðvikudag. 

Þjóðvarðlið hefur verið sent til Washington til að koma í veg fyrir endurtekningu á atburðunum 6. janúar þegar múgur ruddist inn í þinghús Bandaríkjaþings. Alríkislögreglan hefur varað við því að vopnaðir stuðningsmenn Donalds Trumps muni koma saman í öllum ríkjum. 

Vegtálmum hefur verið komið fyrir í miðborg Washington og Joe Biden hefur hvatt stuðningsmenn sína til að ferðast ekki til umdæmisins fyrir innsetningarathöfnina heldur fylgjast með henni rafrænt. 

Búist er við mótmælum á morgun, en fram kemur í færslum inni á hópum stuðningsmanna Trumps og í hópum öfgahægrisinna á samfélagsmiðlum að fyrirhuguð mótmæli verði 17. janúar. Þá eru önnur mótmæli áætluð á miðvikudag. 

Ríkisstjórar Maryland, Nýju-Mexíkó og Utah hafa allir lýst yfir neyðarástandi vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þjóðvarðlið hefur verið kallað til í Kaliforníu, Pennsylvaníu, Michigan, Virginíu, Washington og Wisconsin. Þá hefur ríkisþingi Texas verið lokað frá og með deginum í dag þar til eftir innsetningarathöfnina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert