Fimm saknað eftir eldsvoða

Andøy er í Nordland-fylki, milli Lofoten og Tromsø. Þar er …
Andøy er í Nordland-fylki, milli Lofoten og Tromsø. Þar er fimm manns saknað eftir eldsvoða í sumarbústað í nótt. Google Maps

Fimm manns er saknað í kjölfar eldsvoða í nótt í sumarbústað í Risøyhamn á Andøy sem er eyja í Nordland-fylki í Noregi. Einn þeirra sem dvöldu í bústaðnum komst út úr honum af eigin rammleik en ekkert er vitað um afdrif þeirra sem auk hans dvöldu þar.

„Við vitum að sex manns voru í bústaðnum í gærkvöldi og af þeim getum við aðeins gert grein fyrir einum,“ segir Ivar Bo Nilsson, aðgerðastjóri slökkviliðisins á staðnum, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í morgun.

Lögreglu barst tilkynning um eldinn klukkan 04:30 í nótt, 03:30 að íslenskum tíma, og brann bústaðurinn algjörlega til grunna.

Þyrla við leit á svæðinu

„Slökkviliðið vinnur nú að því að kæla brunavettvanginn og slökkva eld sem kann að blússa upp. Við erum á staðnum og erum nú að meta hvort óhætt sé að lögregla taki við af okkur hér,“ segir Nilsson enn fremur.

Leit stendur yfir að þeim fimm sem saknað er og er hvort tveggja þyrla á svæðinu auk þess sem viðbragðsaðilar ganga um svæðið við leit.

Lögregla kýs enn sem komið er að tjá sig ekki um aldur fimmmenninganna en sá sjötti, sem komst út, er slasaður.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert