Fjögur börn meðal þeirra sem er saknað

mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fimm af sex manneskjum sem voru í sumarhúsi sem brann til kaldra kola í Risøyhamn á Andøy, sem er eyja í Nor­d­land-fylki í Nor­egi, í nótt er saknað. Fjögur þeirra eru yngri en 16 ára segir í fréttatilkynningu sem lögregla sendi frá sér í dag.

Lög­reglu barst til­kynn­ing um eld­inn klukk­an 04:30 í nótt, 03:30 að ís­lensk­um tíma, og brann bú­staður­inn al­gjör­lega til grunna. Einn komst út úr bústaðnum af sjálfsdáðum og staðfestir lögregla að hann sé slasaður. 

Leitað er með þyrlum, drónum og mannskap að sporum eftir þá sem er saknað. Ekkert hefur fundist sem bendir til þess að þeir hafi komist út úr brennandi bústaðnum. 

Öll þau sex sem voru í bústaðnum eru búsett í bænum Vågan á Lófóten. Þar hefur verið sett upp fjöldahjálparmiðstöð þar sem fólki er veitt áfallahjálp. Eins hafa skólarnir í Svolvær og Henningsvær tekið á móti þeim sem leita eftir aðstoð. 

Frétt Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert