Ráðgjafi á sviði vísinda í ríkisstjórn Bidens

Joe Biden hefur mikla trú á vísindum ólíkt fráfarandi forseta.
Joe Biden hefur mikla trú á vísindum ólíkt fráfarandi forseta. AFP

Joe Biden verðandi forseti Bandaríkjanna tilkynnti í gær að embætti ráðgjafa Bandaríkjaforseta á sviði vísinda og tækni yrði að ráðherraembætti. 

Mikið er um kórónuveirusmit í Bandaríkjunum og verður það gríðarstórt verkefni fyrir Biden að takast á við faraldurinn á fyrstu dögum forsetatíðar hans. Yfir 23 milljónir smita hafa verið staðfestar í landinu og tæplega 400.000 hafa látist af völdum veirunnar. 

Erfðafræðingurinn Eric Lander mun leiða skrifstofu vísinda og tækni og vera helsti ráðgjafi Bidens á þessu sviði. 

„Vísindin munu alltaf verða í víglínunni í minni ríkisstjórn – og þessir heimsþekktu vísindamenn munu tryggja að allt sem við gerum sé byggt á vísindum, staðreyndum og sannleikanum,“ sagði Biden í yfirlýsingu þar sem hann tilkynnti skipun Landers og annarra sérfræðinga. 

Fráfarandi Bandaríkjaforseti Donald Trump hefur á forsetatíð sinni margoft dregið vísindi í efa. Hann hefur meðal annars efast um hlýnun jarðar og kallað Anthony Fauci og aðra sóttvarnasérfræðinga „fávita“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert