Þungvopnaður maður handtekinn í Washington

Undirbúningur fyrir innsetningarathöfn Joe Biden sem fram fer á miðvikudag …
Undirbúningur fyrir innsetningarathöfn Joe Biden sem fram fer á miðvikudag er í fullum gangi. AFP

Þungvopnaður maður var handtekinn í Washingtonumdæmi nærri þinghúsi Bandaríkjaþings í kvöld. 

Wesley Allen Beeler frá Virginíu var færður í varðhald eftir að lögregla kom að honum með skotvopn, 500 skotfæri og haglaskot. Beeler hafði reynt að komast hjá öryggisstöð þar sem hann var handtekinn á fölsuðum skilríkjum. 

Mikill viðbúnaður er í Washington þar sem búist er við óeirðum vegna innsetningar Joes Bidens í embætti Bandaríkjaforseta. Múgur, hliðhollur Donald Trump Bandaríkjaforseta, ruddist inn í þinghúsið 6. janúar. Fimm létust, þeirra á meðal lögregluþjónn. 

Bandaríska alríkislögreglan hefur varað við því að stuðningsmenn Trumps og hópar hægriöfgasinna verði öryggisógn við Washington næstu vikuna. 

Þúsundir þjóðvarðliða hafa verið sendar til umdæmisins og vegatálmum komið fyrir á götum miðborgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert