140 bólusettir hverja mínútu

Bólusetning við Covid-19.
Bólusetning við Covid-19. AFP

Á Englandi ganga bólusetningar fjórfalt hraðar en ný smit þar í landi greinast. 140 Englendingar eru bólusettir hverja mínútu að sögn Simon Stevens, yfirmanns bresku heilbrigðismálastofnunarinnar á Englandi. 

Stevens segir að þrátt fyrir hraða bólusetninga hafi álag á sjúkrahúsum vegna kórónuveirunnar aldrei verið meira frá því að faraldurinn hófst. 

Rétt tæplega 300.000 þúsund Englendingar voru bólusettir í dag, sunnudag. 671 létust af völdum veirunnar og tæplega 40.000 þúsund greindust. 

Vonir standa til þess að ein og hálf milljón Englendinga verði bólusettir á komandi viku. Helmingur Englendinga yfir 80 ára aldri hafa þegar verið bólusettir, að því er BBC greinir frá.

Vonir standa til þess að allir fullorðnir Bretar hafi verið bólusettir fyrir september. 

Fjöldi inniliggjandi vegna Covid-19 er 75% meiri nú en hann var á hápunkti fyrstu bylgjunnar í Bretlandi í apríl á síðasta ári. Á þrjátíu sekúnda fresti er sjúklingur með Covid-19 lagður inn á sjúkrahús.

mbl.is