„Ef þeir neita drepið þá, skjótið þá niður á staðnum“

Múgur hvítra öfgasinna eftir valdaránið í Wilmington.
Múgur hvítra öfgasinna eftir valdaránið í Wilmington. Ljósmynd/Wikipedia.org

Ofbeldisfullur múgur, hvattur áfram af stjórnmálamönnum, rústar heilli borg til þess að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum.  

Í kjölfar ríkiskosninganna árið 1898, komu hvítir hægri-öfgasinnar, sem trúðu á yfirburði hvíta kynstofnsins, til Wilmington í Norður-Karólínu, sem var á þeim tíma stærsta borg ríkisins. Múgurinn gjöreyðilagði verslanir og fyrirtæki í eigu svartra íbúa, myrti svarta íbúa og þvingaði stjórnvöld, samsteypa svartra og hvítra stjórnmálamanna, til að segja af sér.  

Sagnfræðingar hafa lýst atburðunum í Wilmington 1898 sem eina valdaráninu í sögu Bandaríkjanna. Forsprakkar múgsins tóku völdin sama dag og valdaránið fór fram og voru fljótir að samþykkja lög sem sviptu svarta íbúa kosningarétti og öðrum borgaralegum réttindum. Engar afleiðingar urðu fyrir valdaræningjana. 

Sagan af valdaráninu í Wilmington hefur verið í sviðsljósinu síðustu daga og vikur eftir að múgur, hliðhollur Donald Trump Bandaríkjaforseta, ruddist inn í þinghús Bandaríkjaþings 6. janúar, í því skyni að koma í veg fyrir að Bandaríkjaþing samþykkti niðurstöður forsetakosninganna sem fram fóru í nóvember. 

Reyndu að snúa við umbótum  

Í lok bandarísku borgarastyrjaldarinnar árið 1865 var þrælahald lagt af. Stjórnmálamenn í Washington umdæmi samþykktu fjölmargar stjórnarskrárbreytingar sem veittu fyrrum þrælum frelsi og réttindi. Her var sendur til suðurríkjanna til að framfylgja breytingunum. Hópur áhrifamikilla manna í suðurríkjunum voru þó mjög á móti breytingunum. Á áratugunum eftir borgarastyrjöldina voru fjölmargar tilraunir gerðar til að snúa við þeim umbótum sem fylgdu styjöldinni fyrir svarta Bandaríkjamenn. 

Teikning af atburðunum 1898.
Teikning af atburðunum 1898. Ljósmynd/Wikipedia.org

Wilmington árið 1898 var stór og farsæl hafnarborg með sístækkandi svarta millistétt. Svartir Bandaríkjamenn urðu eftir sem áður fyrir gríðarlegum fordómum og mismunun, bankar til dæmis lánuðu svörtum ekki pening eða settu gríðarháa vexti á lán til svartra einstaklinga. En á þeim 30 árum sem liðin voru frá borgarastyrjöldinni höfðu svartir íbúar suðurríkjanna, meðal annars Wilmington, stofnað fyrirtæki, byggt og keypt húsnæði og nýtt að öðru leiti þau réttindi sem frelsi þeirra fylgdu. Í Wilmington var til dæmis eina dagblað landsins sem var í eigu svartra á þeim tíma. 

„Svartir Bandaríkjamenn voru að verða frekar farsælir,“ segir Glenda Gilmore, prófessor í sagnfræði við Yale-háskóla í samtali við BBC. „Þeir gengu í háskóla, sífellt fleiri lærðu að lesa og sífellt fleiri áttu fasteignir.“

Velgengni svarta í Norður-Karólínu var ekki einungis félagsleg, heldur einnig pólitísk. Á tíunda áratug 19. aldar stofnuðu svartir og hvítir stjórnmálamenn samband undir nafninu Sameiningarsinnarnir. Sambandið barðist fyrir gjaldfrjálsri menntun, fyrirgefningu skulda og jafnrétti til handa svörtum Bandaríkjamönnum. Sameiningarsinnarnir unnu allar kosningar í ríki Norður-Karólínu árið 1896, þeirra á meðal kosningarnar til ríkisstjóra. Árið 1898 höfðu svartir og hvítir Sameiningarsinnar verið kjörnir til að leiða borgarstjórn Wilmington. 

Demókratar mótfallnir breytingum 

Fjölmargir voru mótfallnir þessum breytingum, meðal annars flokkur demókrata. Á þessum tíma voru flokkar demókrata annars vegar og repúblíkana hins vegar gjörólíkir því sem þekkist í dag. Repúblíkanar, flokkur fyrrverandi forsetans Abrahams Lincoln, vildu aukin réttindi svartra eftir borgarastyrjöldina og sterka ríkisstjórn í Washington sem átti að sameina ríkin. Demókratar aftur á móti voru mótfallnir þeim breytingum sem repúblíkanar stóðu fyrir. Þeir kröfðust aðskilnaðar svartra og hvíta og vildu að ríkin fengju aukna sjálfstjórn. 

Rauðu Skyrturnar.
Rauðu Skyrturnar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Stjórnmálamenn demókrata óttuðust að Sameiningarsinnarnir, sem samanstóðu af svörtum repúblíkönum og fátækum hvítum bændum, myndu sigra með yfirburðum kosningarnar 1898. 

Leiðtogar demókrata settu af stað kosningaherferð sem sneri nær eingöngu um yfirburði hvíta kynstofnsins. Demókratar ætluðu að gera allt sem í þeirra valdi stóð til þess að koma í veg fyrir sigur Sameiningarsinna. 

Hvít herlið, meðal annars hópur sem kallaði sig Rauðu skyrturnar, fóru um Wilmington á hestbaki og ógnuðu svörtum kjósendum. Þegar svartir íbúar Wilmington reyndu að kaupa skotvopn til að vernda eigur sínar neituðu hvítir búðareigendur að afgreiða þá. 

Dagblöð í eigu hvítra Wilmington-búa birtu fullyrðingar um að svartir Bandaríkjamenn vildu pólitísk völd til þess að mega sofa hjá hvítum konum og spunnu lygar um nauðgunarfaraldur í borginni sem svörtum var kennt um. 

Daginn fyrir ríkiskosningarnar 1898, hélt demókratinn Alfred Moore Waddell ræðu þar sem hann krafðist þess að hvítir menn „sinntu skyldum sínum“ og eltu uppi svarta kjósendur. Og ef þið finnið þá, sagði hann, „segið þeim að yfirgefa kjörstaði og ef þeir neita drepið þá, skjótið þá niður á staðnum.“

Myrtu og eyðilögðu 

Demókratar unnu flestar kosningar Norður-Karólínu í kosningunum 1898. Fjölmargir kjósendur voru þvingaðir frá kjörstöðum af hvítum vopnuðum mönnum og enn fleiri mættu ekki á kjörstað af ótta við ofbeldi. En í Wilmington héldu Sameiningarsinnar völdum. 

Tveimur dögum eftir ríkiskosningarnar héldu Waddell og hundruð annarra hvítra karlmanna, vopnaðir riflum og vélbyssum, til Wilmington. Við komuna í borgina kveikti múgurinn í byggingu eina tímarits borgarinnar í eigu svartra, Wilmington Daily Record. Þeir dreifðu síðan úr sér í borginni, myrtu svarta íbúa og kveiktu í fyrirtækjum þeirra. 

Alfred More Waddell.
Alfred More Waddell. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sífellt fleiri bættust í múginn eftir því sem dagurinn leið. Þegar svartir íbúar tóku að flýja borgina í skóglendið umhverfis hana, héldu Waddell og fylgismenn hans að ráðhúsi borgarinnar og þvinguðu stjórnvöld til að segja að sér, ella að vera skotnir til bana á staðnum. Waddell lýsti sig borgarstjóra Wilmington samdægurs. 

Á innan við tveimur árum frá valdaráninu höfðu hvítir stjórnmálamenn í Norður-Karólínu samþykkt lög um aðskilnað svartra og hvítra og afnumið öll grundvallarréttindi svartra íbúa ríkisins. Fjöldi svartra á kjörskrá í Norður-Karólínu fór úr 125.000 árið 1896 í rétt rúmlega 6.000 árið 1902. 

Yfirvöld í Wilmington viðurkenndu ekki atburðina 1898 fyrr en á níunda áratug síðustu aldar. Árið 1998 var þess minnst að hundrað ár væru liðin frá atburðunum.

Christopher Everett er kvikmyndagerðarmaður sem bjó til heimildarmynd um atburðina 1898. Þegar Everett fylgdist með atburðunum í Washington 6. janúar síðastliðinn hugsaði hann umsvifalaust um Wilmington.  

„Það þurfti enginn að svara fyrir valdaránið 1898. Þar af leiðandi opnaði þetta á það, sérstaklega í Suðurríkjunum, að stjórnmálamenn afnumu réttindi svartra. Það er það fyrsta sem ég hugsaði um eftir uppreisnina í Washington. Þetta opnaði á það að eitthvað annað svipað, eða verra, gæti gerst,“ segir Everett við BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina