Navalní kominn aftur til Rússlands

Navalní um borð í flugvél á leið til Moskvu í …
Navalní um borð í flugvél á leið til Moskvu í dag. AFP

Rúss­neski stjórn­ar­and­stæðing­ur­inn Al­ex­ei Navalní er kominn aftur til Rússlands eftir að hafa dvalið í Þýskalandi í kjölfar þess að eitrað var fyrir honum. Flugvélinni sem flutti Navalní aftur til Moskvu var snúið frá flugvellinum sem vélin átti upphaflega að lenda á og þar sem stuðningsmenn hans og fjölmiðlar höfðu komið saman. 

Búist er við því að Navalní verði handtekinn í kvöld. Fjórir af helstu stuðningsmönnum hans voru handteknir á Vnukovo flugvellinum í Moskvu, þar sem vélin átti upphaflega að lenda, áður en henni var snúið á Sheremetyevo flugvöllinn. 

Navalní seg­ir rúss­nesk stjórn­völd standa á bak við eitrunina, sem varð honum næstum að bana, og hafa rann­sókn­ar­blaðamenn auk stjórnvalda ríkja Evrópusambandsins stutt við þær ásak­an­ir Navalnís en yf­ir­völd í Rússlandi þver­taka fyr­ir þær.

Að sögn Navalnís hef­ur hann náð sér nán­ast að fullu eft­ir árás­ina, hann sakni Moskvu og það hafi aldrei verið efi í hans huga um að snúa aft­ur heim. 

Stuðningsmenn Navalní komu saman við flugvöllinn í Moskvu þar sem …
Stuðningsmenn Navalní komu saman við flugvöllinn í Moskvu þar sem hann átti upphaflega að lenda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert