„Samfélagið er bara eyðilagt“

Séra Gunnar Már Kristjánsson, þjónandi prestur í Vågan í Nordland-fylki …
Séra Gunnar Már Kristjánsson, þjónandi prestur í Vågan í Nordland-fylki í Noregi, segir samfélagið bugað eftir eldsvoðann í gærnótt og nú vinni fjórir prestar auk tuga annarra fagaðila að því að styðja við íbúana sem hafi fá svör við ótal spurningum. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru eiginlega engin orð sem maður getur gripið til, samfélagið hérna er bara eyðilagt,“ segir séra Gunnar Már Kristjánsson í samtali við mbl.is, þjónandi prestur í Vågan í Nordland-fylki í Noregi, þar sem eldsvoði í sumarbústað kostaði fimm manns lífið í Risøyhamn á Andøy í gærnótt, þar af fjögur börn.

Séra Gunnar hefur þjónað sóknarbörnum í Vågan, um það bil 11.000 íbúa samfélagi, um eins árs skeið, en var áður prestur í Lofoten í fjögur ár.

„Þetta eru fjögur börn undir sextán ára aldri og þetta snertir tvö samfélög hérna djúpt, þetta er alveg hrikalegt,“ segir séra Gunnar og á við Svolvær og Henningsvær. Hann, ásamt þremur öðrum prestum, hefur ekki unnað sér mikillar hvíldar síðan í gærmorgun.

50 fagaðilar á svæðinu

„Við erum búin að vera á fullu hérna og höfum verið að tala við fjölskyldur og nemendur og starfsfólk skólanna hérna og reynum bara að mæta sem flestum,“ segir séra Gunnar frá og ber áfallahjálparteymi sveitarfélagsins mjög vel söguna, en auk þess hafi Rauði krossinn lagt gjörva hönd á plóg og allt í allt um 50 fagaðilar sem að sögn séra Gunnars hafa komið að því að aðstoða bugað samfélag eftir atburð sem seint mun falla í gleymskunnar dá.

„Hér eru sálfræðingar og hjúkrunarfræðingar auk okkar prestanna, umfangið er svo mikið, sérstaklega hvað varðar börnin sem tengjast þeim sem voru í bústaðnum, utan um þau þarf að halda vel og við höfum fengið hingað barnaverndarnefnd og barnasálfræðing okkur til fulltingis,“ segir presturinn.

Svolvær-kirkja gnæfir yfir Svolvær í Vågan. Dyr hennar og kirkjunnar …
Svolvær-kirkja gnæfir yfir Svolvær í Vågan. Dyr hennar og kirkjunnar í Henningsvær voru opnaðar syrgjandi bæjarbúum í gær og þeim boðið upp á kaffi, spjall og samveru. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hann segir nánustu ættingja fólksins njóta forgangs og byrjað hafi verið á að tilkynna þeim hvað gerst hefði og tryggja að kringum þá væru vinir og ættingjar til að veita þann stuðning sem hægt er. „Þegar því var lokið voru skólarnir opnaðir og þangað komu bekkirnir sem þessi börn voru í, þetta eru fjórir bekkir sem þetta snertir beint svo það var mikill fjöldi auk þess sem foreldrar komu auðvitað með. Við vorum þarna saman í tvo tíma,“ lýsir séra Gunnar fyrstu skrefum hjálparstarfsins eftir að ótíðindin bárust í gær.

„Hefur maður einhvern tímann fengið nóg?“

Eru prestar almennt vel í stakk búnir til að veita þá hjálp sem þörf er á þegar slíkur harmur er kveðinn að samfélagi?

„Við fáum náttúrulega þjálfun í svona vinnu, en hversu mikil hún er, ja, hefur maður einhvern tímann fengið nóg?“ spyr séra Gunnar á móti. „Allir upplifa sig litla í svona aðstæðum, þú hefur engin orð sem geta tekið burt sársaukann sem fólk er að upplifa. Þetta snýst aðallega um að staðfesta sorgina sem fólkið er í og hjálpa því að skapa öryggisnet í kringum sig, að fólk geti fundið einhvern stað þar sem það getur hist og til þess höfum við notað kirkjurnar. Fólk kemur þangað, kveikir ljós, fær kaffibolla, sóknarnefndarfólkið hefur verið hérna og hellt upp á kaffi og boðið upp á spjall,“ segir séra Gunnar og kveður samstöðu litla samfélagsins í Norður-Noregi þétta á ögurstundu.

„Samhugurinn hérna er svo mikill, allir eru að hjálpa til, kvenfélagið hérna í Svolvær kom og eldaði mat handa öllum sem eru að vinna í þessu, maður gleymir oft að borða í svona og hér hefur verið passað vel upp á okkur, en auðvitað er enginn tilbúinn fyrir eitthvað svona, þetta er bara svo mikið,“ segir hann enn fremur.

Frá vettvangi brunans í gær. Séra Gunnar Már segir alla …
Frá vettvangi brunans í gær. Séra Gunnar Már segir alla upplifa sig litla í kjölfar þessa voðaatburðar. Ljósmynd/Lögreglan í Nordland

Hlutverk prestanna sé að miklu leyti að hlusta á fólk, ótal spurningar brenni á því um örlög sveitunga sinna og vina. „Lögreglan getur engu svarað strax um hvað gerðist, hverjar aðstæður hefðu verið og hvort fólkið hefði verið með meðvitund eða dáið í svefni og fyrst um sinn er maður aðallega til staðar og að reyna að róa fólk og fá það til að vera ekki að gera sér einhverjar hugmyndir um hvað gerðist þarna.“

Fara gegnum tilfinningar og upplifanir

Séra Gunnar segir nú unnið að því að undirbúa morgundaginn í skólunum, hjálpa kennurum og skólastjórum að gera áætlanir auk þess sem prestar og aðrir fagaðilar verði áfram með nánustu fjölskyldur. „Núna lifa krakkar líka á netinu og eru í hópum þar svo við erum að reyna að finna út hversu virk þau [börnin fjögur í bústaðnum] voru þar,“ segir presturinn sem kveðst ekki hafa staðið frammi fyrir áfalli í líkingu við þetta á sínum starfsferli.

Hvernig skyldi honum ganga að vinda ofan af sjálfum sér eftir vinnu á borð við þá sem þessi helgi hefur haft í för með sér?

„Við prestarnir höldum stöðufund eftir hvern dag þar sem við förum gegnum tilfinningar okkar, upplifanir og hvar við stöndum. Mitt net er svo auðvitað líka konan mín og fjölskyldan mín. En ég verð líka að nefna áfallahjálparteymið hérna sem hefur passað mjög vel upp á að við fáum hvíld og borðum. Þetta getur mjög fljótt farið út í að þú sért bara að hoppa milli staða og stoppar aldrei til þess að hugsa um það sem þú ert búinn að ganga í gegnum,“ segir séra Gunnar.

Láta fólk finna að það standi ekki eitt

Hann segir langan tíma munu líða þar til takturinn verði orðinn eðlilegur í samfélaginu. Alvarlegt slys hafi orðið á svæðinu fyrir tveimur árum þegar fjölskylda ók út í sjó og þrjú börn létust og því skammt stórra högga á milli. Þar hafi þó verið á ferð fjölskylda af erlendu bergi brotin sem þar af leiðandi hafði ekki eins sterk og djúp tengsl inn í samfélagið og nú er.

Hvað er fram undan það sem eftir lifir þessa sunnudags?

„Þegar ég er búinn að tala við þig fer ég út í Henningsvær-kirkju, opna hana og tek á móti fólki þar. Svo er það stöðufundur okkar prestanna klukkan átta og svo aðstandendur seinna í kvöld. Nú skiptir höfuðmáli að halda utan um fólkið okkar eftir það sem gerðist og láta það finna að það standi ekki eitt,“ segir séra Gunnar Már Kristjánsson að lokum, þjónandi prestur í Vågan í Nordland-fylki í Noregi.

mbl.is