Stöðvuðu 1,3 tonna kókaínsendingu á leið til Eistlands

Mynd frá lögreglunni í Perú af kókaíni sem lagt hefur …
Mynd frá lögreglunni í Perú af kókaíni sem lagt hefur verið hald á. AFP

Lögreglan í Ekvador lagði hald á 1,3 tonn af kókaíni sem voru falin í gámi sem átti að senda til Eistlands. Innanríkisráðherra Ekvador, Patricio Pazmino, greindi frá þessu í dag. Fíkniefnin fundust við höfnina í Guayaquil og að sögn ráðherrans er hægt að þakka árvekni fíkniefnahunds að kókaínfarmurinn fannst.

Pazmino birtir á Twitter mynd af gámnum sem hann segir að hafi átt að senda til Eistlands og þakkar þar hundinum Garo fyrir.

Lögreglan í Ekvador lagði í fyrra hald á 128 tonn af fíkniefnum og er þetta mesta magn fíkniefna sem hún hefur lagt hald á. Fyrra metið er frá árinu 2016 en þá voru tonnin 110 talsins. Ekvador á landamæri að Kólumbíu og Perú sem eru þau lönd sem framleiða mest af kókaíni í heiminum samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert