Tvö lík fundin í brunarústunum

Tvö lík fundust nú fyrir skömmu í brunarústum sumarbústaðarins og …
Tvö lík fundust nú fyrir skömmu í brunarústum sumarbústaðarins og er þeirra þriggja, sem enn er saknað, leitað. Jørn Karlsen, aðgerðastjóri lögreglunnar á vettvangi, ræðir hér við fjölmiðla. Skjáskot/Fréttir NRK

Tæknimenn norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos hafa fundið tvö lík af fólkinu sem saknað hefur verið síðan snemma í gærmorgun í kjölfar eldsvoða í sumarbústað í Risøyhamn á Andøy. Þriggja er enn saknað og heldur leitin nú áfram, að sögn Jørn Karlsen, aðgerðastjóra lögreglunnar í Nordland, sem er á staðnum og ræðir nú við norska ríkisútvarpið NRK.

Fjögur þeirra fimm sem ekki komust út úr bústaðnum eru börn, en fólkið, sex manns í allt, er frá Vågan í Lofoten þar sem tvær kirkjur opnuðu dyr sínar í gær, í Svolvær og Henningsvær þar sem börnin sóttu skóla.

Karlsen segir ekki unnt að bera kennsl á líkin á vettvangi, en þau verði nú flutt á Háskólasjúkrahúsið í Tromsø þar sem krufning fer fram. Hann segir starfið á vettvangi erfitt vegna aðstæðna og leit hafi ekki hafist eins snemma í morgun og vonir stóðu til.

John Inge Johansen, fréttamaður NRK, talaði nú rétt í þessu frá Svolvær í Vågan og segir íbúum þar mjög brugðið og hafi áfallahjálparteymi sveitarfélagsins verið virkjað.

Þá ræddi Frank Johnsen bæjarstjóri við NRK og sagði atburðinn ólýsanlega sorglegan, sveitarfélagið væri lítið og þar þekktu allir alla. Auk kirknanna tveggja hafa skólarnir sem börnin sóttu einnig verið opnaðir og hafa bæjarbúar streymt þangað og lagt blóm á tröppur skólanna auk þess að leita styrks í samverunni.

NRK

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert