Bandaríkin og ESB krefjast lausnar Navalnís

Alexei Navalní á flugvellinum í Rússlandi í gær skömmu áður …
Alexei Navalní á flugvellinum í Rússlandi í gær skömmu áður en hann var handtekinn. AFP

Bandaríkin og þó nokkrar ríkisstjórnir í Evrópu hafa krafist þess að stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní verði sleppt úr haldi í Rússlandi.

Navalní, sem er 44 ára, var handtekinn af rússnesku lögreglunni skömmu eftir komu sína frá Þýskalandi í gær.

Hann var að snúa aftur til heimalandsins fimm mánuðum eftir að hann var nálægt því að látast í árás sem var gerð á hann með taugaeitri. Rússnesk stjórnvöld hafa verið sökuð um að hafa staðið á bak við hana. Því hefur Vladimir Pútín, forseti Rússlands, vísað á bug.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að rússnesk stjórnvöld væru að reyna að þagga niður í gagnrýnendum sínum. Hann krafðist þess að Navalní yrði tafarlaust leystur úr haldi.

„Sjálfsöruggir stjórnmálaleiðtogar óttast ekki raddir andstæðinga sinna, fremja ofbeldisverk gegn þeim eða handtaka að ósekju pólitíska andstæðinga sína,“ sagði Pompeo, að því er BBC greindi frá.

Þjóðaröryggisráðgjafi verðandi Bandaríkjaforseta, Joes Bidens, hafði svipaða hluti að segja. „Árásir Kreml á Navalní eru ekki bara brot á mannréttindum heldur gera þær lítið úr rússneskum almenningi sem vill að raddir hans heyrist,“ sagði Jake Sullivan.

ESB-ríkin Frakkland og Ítalía, ásamt forseta Evrópuráðsins, Charles Michel, kröfðust einnig lausnar Navalnís. Ríkisstjórn Bretlands sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsti yfir miklum áhyggjum af handtöku hans. „Í stað þess að ofsækja fórnarlamb hræðilegs glæps ættu rússnesk stjórnvöld að rannsaka hvers vegna efnavopn var notað á rússneskri grundu.“

Uppfært kl. 8.12:

Utanríkisráðherrar Þýskalands og Bretlands hafa jafnframt sent frá sér yfirlýsingar þar sem þeir fordæma handtökuna.

mbl.is