Ráðlagt að meta heilsu fyrir bólusetningu

Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu.
Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu. AFP

Engin bein tengsl eru á milli bólusetningar bóluefnis Pfizer við Covid-19 og dauðsfalla þeirra sem látist hafa eftir bólusetningu í Noregi. Læknum er ráðlagt að meta heilsu þeirra viðkvæmustu áður en þeir eru sprautaðir.

Alls hafa 23 látist í Noregi eftir að hafa hlotið fyrri skammt bóluefnis Pfizer, samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í landinu.

Í frétt Reuters kemur fram að Lýðheilsustofnun Noregs (FHI) hafi skoðað 13 dauðsfallanna þar sem um var að ræða háaldraða einstaklinga sem glímdu við alvarleg veikindi.

Camilla Stoltenberg, forstjóri Lýðheilsustofnunarinnar, sagði að áherslur vegna bólusetningar yrðu áfram þær sömu; meta skyldi alla áður þeir fengju sprautuna.

„Það er mikilvægt að muna að 45 einstaklingar deyja að meðaltali daglega á hjúkrunarheimilum í Noregi,“ sagði Stoltenberg og bætti við að ekki væri hægt að sjá nein tengsl milli bólusetningar og andlátanna.

Stoltenberg sagði að mögulega hefðu einhverjir verið of viðkvæmir til að fá bólusetningu. Slíkir einstaklingar gætu veikst alvarlega af hefðbundnum aukaverkunum bóluefnisins, sem byggir upp ónæmi hjá fólki.

Alls hafa rúmlega 48 þúsund manns verið bólusettir við Covid-19 í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert