Sendu bréf upp á yfirborðið

Björgunarmenn á leiðinni á svæðið þar sem námuverkamennirnir eru fastir.
Björgunarmenn á leiðinni á svæðið þar sem námuverkamennirnir eru fastir. AFP

Að minnsta kosti 12 námuverkamenn sem hafa verið fastir neðanjarðar í Kína í að minnsta kosti eina viku hafa komið bréfi upp á yfirborðið þar sem þeir láta vita af því að sumir eru slasaðir, vatn umkringir þá og að þeir þurfa nauðsynlega á lyfjum að halda.

22 námuverkamenn í leit að gulli festust um 600 metrum frá inngangi námunnar eftir sprengingu sem varð fyrir átta dögum í námu skammt frá borginni Qixia í héraðinu Shandong í austurhluta Kína.

AFP

Eftir nokkra daga án nokkurra ummerkja um líf heyrðu björgunarmenn bank seinnipartinn í gær. Bréf var sent upp með kaðli þar sem kom fram að að minnsta kosti 12 manns væru enn á lífi en þörf væri á hjálp sem allra fyrst. Í bréfinu stóð að meðal annars þyrfti verkjastillandi og bólgueyðandi lyf, auk þess sem þrír væru með of háan blóðþrýsting.

Óvíst er um afdrif tíu verkamanna. Fjórir eru slasaðir, samkvæmt bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert