130 ökutæki rákust saman á hraðbraut — einn látinn

Einn lést og 10 slösuðust þegar 130 ökutæki rákust saman í miklum hríðarbyl á Tohoku-hraðbrautinni í norðurhluta Japans.

Mikil vetrarfærð er á svæðinu en slysin urðu um hádegisbil að staðartíma, eða um kl. 3 í nótt að íslenskum tíma.

Fram kemur á vef BBC, að um 200 manns hafi lent í þessum hremmingum og var talsverður viðbúnaður á vettvangi. 

Undanfarnar vikur hefur mikið vetrarveður gengið yfir Japan, en sumstaðar hefur snjóað tvöfalt meira en í venjulegu árferði. 

Yfirvöld lækkuðu hámarkshraðann niður í 50 km hraða á klst. þar sem skyggni var einnig mjög slæmt. 

Þá hefur verið mjög hvasst á svæðinu en vindhraðinn mældist vera um það bil 28 metrar á sekúndu þegar slysið varð. 

Aðstæður á vettvangi voru erfiðar sökum hvassviðris og fannfergis.
Aðstæður á vettvangi voru erfiðar sökum hvassviðris og fannfergis. AFP
mbl.is