Fundu 500 ára gamalt málverk inni í eldhússkáp

Fimm hundruð ára gamalt málverk fannst nýverið inni í íbúð í borginni Napólí á Ítalíu. Búið er að skila málverkinu á listasafn en starfsmenn safnsins höfðu ekki gert sér grein fyrir því að verkinu hefði verið stolið. 

Verkið sem fannst er eftirmynd af málverkinu Salvator Mundi sem talið er að listamaðurinn Leonardo da Vinci hafi málað. Það fannst inni í eldhússkáp á laugardaginn. Talið er að einn af nemendum da Vincis hafi málað myndina. Þetta kemur fram á vef BBC. 

Húsráðandinn, 36 ára gamall maður, var handtekinn grunaður um að hafa tekið á móti stolnum varningi, að því er lögreglan segir. 

Giovanni Melillo, saksóknari í Napólí, segir að listaverkið hafi fundist þökk sé snilli og afburðarannsóknar lögreglumanna. 

Listaverkið er alla jafna hluti af sýningu Doma-listasafnsins í San Domenico Maggiore-kirkjunni í borginni. 

Melillo segir að starfsmenn safnsins hafi ekki gert sér grein fyrir stuldinum þar sem herbergið þar sem verkið var geymt hafði ekki verið opnað í þrjá mánuði vegna kórónuveirufaraldursins. 

Það er því ekki vitað hvenær myndinni var stolið þar sem enginn hafði tilkynnt málið til lögreglunnar. Lögreglan rannsakar nú málið en engin ummerki eru um innbrot. Talið er mögulegt að samtök, sem tengist alþjóðlegri sölu á listaverkum, hafi staðið á bak við þjófnaðinn. 

Gestir í franska Louvre-safninu í París sjást hér taka símamyndir …
Gestir í franska Louvre-safninu í París sjást hér taka símamyndir af frummyndinni sem Leonardo da Vinci málaði fyrir 500 árum. AFP
mbl.is