Hollenski forsætisráðherrann grillaður

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hjólar á leið á fund.
Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hjólar á leið á fund. AFP

Hollenskir stjórnarandstöðuflokkar hraunuðu yfir Mark Rutte forsætisráðherra á þriðjudag í kjölfar afsagnar ríkisstjórnarinnar vegna hneykslismáls um barnabætur og hvöttu hann til að taka persónulega ábyrgð.

Þúsundir hollenskra foreldra voru ranglega sakaðir um svik þegar þeir kröfðust barnabóta og þeir neyddir til að greiða til baka háar fjárhæðir sem skildu þá eftir í fjárhagslegri rúst.

Sumar fjölskyldur voru einnig rannsakaðar af skattayfirvöldum vegna þess að þær höfðu tvöfalt ríkisfang sem undirstrikar langvarandi kerfisbundna kynþáttafordóma í Hollandi.

Lilianne Ploumen, nýkjörinn leiðtogi verkamannaflokksins, var meðal þeirra sem skutu fast á Rutte. „Vantraust læddist hægt inn í öll kerfi,“ sagði hún. Verkamannaflokkurinn hefur einnig sagt að „fingraför Rutte séu á hverri síðu“ hneykslisins.

Getur ekki hjólað frá vandamálinu

Hollenski forsætisráðherrann „getur ekki bara hjólað í burtu frá vandamálinu með bros á vör og epli í hendi sér,“ sagði Ploumen og vísaði til komu Rutte á þing á hjóli á föstudag fyrir afsögn ríkisstjórnarinnar.

Rutte sagðist axla „fulla ábyrgð“ sem leiðtogi ríkisstjórnarinnar. „Ég er ekki að ganga í burtu frá skyldum mínum. Það sem gerðist var hræðilegt og munum við læra af þessu svo þetta gerist ekki aftur,“ sagði Rutte. 

Hollenska ríkisstjórnin tilkynnti að hvert foreldri sem var ranglega sakað muni fá 30.000 evrur í skaðabætur. Þingmenn bentu þó á, fyrr í dag, að enn á eftir að greiða bæturnar. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert